Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 485  —  191. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Einarsson, Áslaugu Einarsdóttur og Unu Björk Ómarsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti og Steingrím Ara Arason frá Sjúkratryggingum Íslands. Þá bárust umsagnir frá Landspítala, Tryggingastofnun Íslands, Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Landlæknisembættinu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.
    Með frumvarpinu er lagt til að frestað verði að flytja samningsgerð er varðar samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili til Sjúkratrygginga Íslands. Í IV. kafla laganna er kveðið á um að sjúkratryggingastofnunin skuli annast samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu en samningsgerðin var áður í höndum heilbrigðisráðuneytisins og samninganefnda heilbrigðisráðherra. Samkvæmt gildistökuákvæði 56. gr. laganna er gert ráð fyrir að samningsgerðin muni flytjast til stofnunarinnar í þremur áföngum. Við gildistöku laganna, 1. október 2008, fluttist sá hluti sem áður hafði verið hjá samninganefnd heilbrigðisráðherra. Hluti samninga sem voru á hendi ráðuneytisins fluttist 1. júlí sl. og á áðurnefndur hluti samningsgerðar að flytjast til Sjúkratrygginga Íslands 1. janúar 2010.
    Fram kom á fundi nefndarinnar að með tilkomu laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, átti að kostnaðargreina alla heilbrigðisþjónustu. Sú vinna hafi hins vegar reynst þyngri í vöfum en gert var ráð fyrir og er það einkum vegna þess fjárskorts sem stofnunin hefur þurft að líða. Einnig kom fram að ekki sé ennþá búið að ljúka við áformaða fjárhagslega uppskiptingu milli Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga, ekki hafi enn orðið af flutningi 5–6 starfsmanna frá aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins til stofnunarinnar vegna samningamálanna og ekki hafi enn orðið af flutningi starfsmanna frá heilsugæslunni og Landspítalanum sem sinnt hafa samningsgerð og öðrum verkefnum sem Sjúkratryggingum var ætlað að sinna, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.
    Er það skoðun meiri hlutans að eins og staða Sjúkratrygginga er í dag sé ekki raunhæft að gera ráð fyrir því að samningar við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins, sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili muni takast fyrir gildistíma ákvæðisins, 1. janúar 2011.
    Í umsögnum um málið kom fram óánægja með að fresta eigi gildistöku ákvæða um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins, sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili til 1. janúar 2014 og töldu umsagnaraðilar þann frest of langan. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið en áréttar að óumflýjanlegt sé að fresta gildistöku ákvæðisins. Hins vegar leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæðinu á þann hátt að fram til 1. janúar 2014 sé ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. Með þeirri breytingu er ákvæðið rýmkað á þann hátt að ráðherra getur fram að þeim tíma ákveðið daggjöld með reglugerð en ekkert komi hins vegar í veg fyrir að Sjúkratryggingastofnun ráðist í þá samningsgerð sem nauðsynleg er.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    2. gr. orðist svo:
    1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum orðast svo: Fram til 1. janúar 2014, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 56. gr., er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila.

Alþingi, 11. des. 2010.



Þuríður Backman,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.



Ólafur Þór Gunnarsson.


Kristján L. Möller.