Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 379. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 497  —  379. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um seinkun klukkunnar og bjartari morgna.

Flm.: Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall,


Álfheiður Ingadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ólína Þorvarðardóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, Árni Johnsen, Sigmundur Ernir Rúnarsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund. Valin verði hentug tímasetning til þess að ráðast í aðgerðina, innan árs frá samþykkt tillögu þessarar, að lokinni tilhlýðilegri kynningu í þjóðfélaginu og undirbúningi.

Greinargerð.


    Miðað við gang sólar er klukkan á Íslandi rangt skráð. Í stað þess að sól sé hæst á lofti um hádegisbil er sól á Íslandi hæst á lofti í Reykjavík að meðaltali kl. 13.28 og á Egilsstöðum hálftíma fyrr. Verði klukkunni varanlega seinkað um eina klukkustund, eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir, yrði sól hæst á lofti í Reykjavík að jafnaði klukkan hálf eitt og á Egilsstöðum í kringum tólf, eins og eðlilegt er.
    Vegna þessarar tímaskekkju á Íslandi kannast líklega flestir Íslendingar við þá nöpru tilfinningu að þurfa að vakna til vinnu eða skóla í svartamyrkri stóran hluta ársins. Í raun er enn nótt á Íslandi, miðað við gang sólar, þegar Íslendingar fara til vinnu klukkan átta eða hálf níu miðað við núverandi klukku. Verði klukkunni seinkað um eina klukkustund verða morgnarnir hins vegar bjartir langt fram í nóvember og byrja aftur að verða bjartir síðari hluta janúar. Sólin rís oftar á undan fólkinu með tilheyrandi varma og birtu. Myrkum morgnum fækkar til muna.
    Fjölmargar rannsóknir í læknis- og lífvísindum hafa leitt í ljós á undanförnum árum að líkamsklukkan fer mjög eftir gangi sólar. Komið hefur í ljós að unglingar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir truflunum hvað þetta varðar. Rangt skráð klukka getur haft mikil áhrif í þá átt að minnka einbeitingu skólanema og annarra. Ungmenni vakna þreytt á morgnana, enda enn nótt, og njóta síður dagsins sem í hönd fer.
    Tillaga þessi, verði hún samþykkt, leiðir vitaskuld til breyttrar afstöðu Íslands gagnvart nágrannalöndum. Tímamismunur verður einni klukkustund minni milli Íslands og Ameríku en einni klukkustund meiri milli Íslands og annarra Evrópulanda. Ekki verður séð, á tækniöld, að þetta þurfi að hafa teljandi áhrif á viðskipti og samskipti Íslendinga við þessar heimsálfur og aðrar. Mikilvægast er, af sjónarhóli tillöguflytjenda, að tíminn á Íslandi sé rétt skráður, en Íslendingar skrái ekki tímann sinn vitlaust vegna annarlegra ástæðna. Ísland er á hnettinum þar sem það er. Mikilvægast er að tíminn á Íslandi sé skráður til samræmis við það.