Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 245. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 555  —  245. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ólöfu Nordal um ofþyngd barna.

     1.      Hvernig hefur þyngd barna fram að 18 ára aldri þróast hérlendis undangengin 20 ár?
    Til að meta holdafar er oft miðað við líkamsþyngdarstuðul sem reiknaður er út með því að deila í þyngd (kg) með hæðinni í öðru veldi (kg/m2). Stuðullinn tekur þó ekki tillit til mismunandi líkamsbyggingar fólks og ekki er hægt að nota hann til að leggja mat á líkamsþyngd barna.
    Eftirfarandi tvær myndir gefa nokkra hugmynd um hvernig þyngd barna hefur þróast undanfarin ár. Það er ánægjulegt að geta þess að aukning á offitu og ofþyngd virðist hafa stöðvast frá því eftir árið 2000, bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mynd 1 úr gagnagrunni skólaheilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sýnir þróun ofþyngdar og offitu meðal níu ára barna 1958–2004.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Mynd 2 úr skýrslu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Lýðheilsustöðvar (Stefán H. Jónsson og Margrét Héðinsdóttir, 2010) sýnir hlutfall barna í Reykjavík og eftir 2006 á höfuðborgarsvæðinu öllu sem er yfir kjörþyngd árin 1958–2009.

     2.      Sé merkjanleg breyting á þyngd barna á þessu tímabili, hvaða skýringar eru á því?
    Engin ein skýring er á því hvernig þyngd barna hefur þróast og breyst heldur eru skýringarnar bæði margar og flóknar og fléttast jafnvel saman. Áhrifaþættir sem taldir eru hafa hér áhrif eru breyttir lífshættir, mataræði og hreyfing. Aukið sjónvarpsáhorf, tölvunotkun og bílaeign hafa áhrif á hreyfingu og annað hegðunarmynstur sem börn og aðrir temja sér en það getur haft áhrif á holdafar. Einnig er vert að geta þess að markaðsetningu á vörum er gjarnan beint að börnum og þær vörur eru ekki endilega hollustuvörur heldur oft þvert á móti, til að mynda sykraðir drykkir. Lýðheilsuviðhorf skipta hér máli.
    
     3.      Hver hefur þróun þyngdar barna á Íslandi verið samanborið við önnur lönd innan OECD?
    Fáar þjóðir hafa yfir að ráða miðlægum gagnagrunni þar sem skráð er nákvæm mæling á hæð og þyngd barna. Fjölþjóðlegur samanburður á þyngd barna byggist oft á gögnum sem fengin eru með spurningalistum fyrir börn. Upplýsingar sem þannig eru fengnar eru ekki eins nákvæmar og þegar heilbrigðisstarfsmaður mælir sjálfur hæð og þyngd barnanna.
    Í alþjóðlegri rannsókn (Health behaviours in school aged children), meðal 15 ára pilta og stúlkna, sem Íslendingar tóku þátt í og tölur frá OECD byggjast á kom í ljós að tæplega 20% ungmennanna voru yfir kjörþyngd og voru piltar þar nokkuð fjölmennari en stúlkur. Það eru svipaðar niðurstöður og víða í Evrópu en í Bandaríkjunum eru þessi ungmenni fleiri eða u.þ.b. 30% af þátttakendum.
    
     4.      Hvað segja niðurstöður rannsókna um afleiðingar ofþyngdar barna á líðan þeirra?
    Afleiðingar ofþyngdar barna á líðan þeirra er mjög einstaklingsbundin. Meðal ungra barna eru áhrif ofþyngdar ekki endilega svo afgerandi nema ef vera kynni að um verulega offitu væri að ræða. Þessi börn eru þó útsett fyrir stríðni vegna þyngdarinnar og getur sú stríðni valdið vanlíðan. Meðal eldri barna og þá sérstaklega unglinga eru líkur á að sálrænar afleiðingar offitu fari að verða meiri og alvarlegri og þá sérstaklega hjá stúlkum.
    Rannsóknir hafa sýnt að offita getur stuðlað að ýmsum sjúkdómum og þó þeir komi ekki fram fyrr en á fullorðinsárum þá getur offita á barnsaldri flýtt fyrir þróun þeirra. Sem dæmi um slíka sjúkdóma má nefna hjartasjúkdóma og sykursýki.

     5.      Hvaða ráðleggingar gefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin til að vinna gegn ofþyngd barna?
    Evrópusáttmáli WHO um baráttu gegn offituvandanum var samþykktur á ráðherrafundi WHO í Istanbúl í nóvember árið 2006. Með undirritun sáttmálans gerðu heilbrigðisráðherrar Evrópu með sér samkomulag um að sporna gegn þróun ofþyngdar og offitu í álfunni. Sáttmálinn hefur verið þýddur á íslensku og má finna hann í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins. Þar kemur m.a. fram að til að vinna gegn ofþyngd sé mikilvægt að flétta saman markmið í heilbrigðis-, efnahags-, félags- og menningarmálum og mynda þannig samfélagsaðstæður þar sem heilbrigðir lífshættir á sviði mataræðis og líkamshreyfingar verði ríkjandi. Ábyrgðin sé stjórnvalda, samfélagsins og einstaklingsins og þar þurfi að ríkja jafnvægi á milli.
    Einnig kemur þar fram að huga þurfi sérstaklega að börnum og ungmennum, svo sem með setningu reglugerða til að vernda þau gegn áhrifum markaðsaflanna þar sem þau hafa ekki þá lífsreynslu sem nauðsynleg er til að verja sig sjálf.

     6.      Til hvaða úrræða hafa heilbrigðisyfirvöld gripið vegna ofþyngdar barna?
    Margir þættir á öllum stigum samfélagsins og í nánasta umhverfi einstaklinga hafa áhrif á heilsu þeirra og holdafar. Með þær staðreyndir í huga hafa heilbrigðisyfirvöld reynt að hafa áhrif víða.
    Ráðuneytið hefur gefið út heilbrigðisáætlun til ársins 2010 þar sem m.a. eru sett fram markmið varðandi hreyfingu, mataræði og holdafar. Áætlunin grundvallast á samþykkt alþjóðaheilbrigðisþingsins árið 1998, áætlun Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar ( Health21) og almennri stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda. Unnið er núna að endurskoðun á heilbrigðisáætluninni innan ráðuneytisins og mun ný áætlun ná til ársins 2020 og skýra þannig stefnuna til næstu ára. Í samræmi við stefnu heilbrigðisyfirvalda hafa einnig verið sett lög og reglugerðir til að stuðla að æskilegum samfélagsaðstæðum með heilbrigða lífshætti í huga, t.d. varðandi matvæli og ýmsa markaðssetningu á vörum og þjónustu.
    Faghópur á vegum landlæknisembættisins vann og setti fram tillögur að samræmdri stefnu og aðgerðum í forvörnum og meðferð of þungra og of feitra barna. Það var gert með það fyrir augum að hægt væri að nýta sem best krafta og þekkingu heilbrigðiskerfisins til að sporna gegn þróun ofþyngdar og offitu barna og unglinga.
    Í samstarfi við ýmsar undirstofnanir heilbrigðisráðuneytisins, svo sem Lýðheilsustöð og landlæknisembættið, hefur einnig verið unnið dýrmætt starf til að hafa áhrif á heilbrigði og holdafar barna, ungmenna og fólks á öllum aldri. Það starf hefur jafnvel verið unnið með ýmsum sveitarfélögum og þannig reynt að láta heilbrigðisstefnuna hríslast inn í nánasta umhverfi einstaklinga.
    Sem dæmi um slíkt samstarf má nefna að unnið er að því að efla þróunarstarf um heilsueflingu í grunn- og framhaldsskólum í samstarfi við skóla, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitafélaga, Lýðheilsustöð og fleiri. Í tengslum við það samstarf býðst skólum að fá ýmiss konar stuðningsefni og námskeið til að vinna heildrænt að heilsueflingu nemenda og starfsfólks, m.a. til að vinna að aukinni hreyfingu og betri næringu meðal þeirra. Nýr samningur um heilsueflingu í framhaldsskólum (HOFF) var undirritaður í byrjun október milli heilbrigðisráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins, samtaka framhaldsskólanemenda, Félags íslenskra framhaldsskóla, Ráðgjafanefndar um æskulýðsrannsóknir og Lýðheilsustöðvar. Eins og kom fram í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar hefur verið fylgst reglubundið með hæð og þyngd nemenda í grunnskóla.
    Ýmis konar fræðsluefni og handbækur sem snertir heilsu og heilbrigða lífshætti hefur verið gefið út. Má þar til að mynda nefna Ráðleggingar um matarræði og næringarefni, Ráðleggingar um hreyfingu og Virkni í skólastarfi, handbók um hreyfingu fyrir grunnskóla sem Lýðheilsustöð hefur gefið út og fræðsluefni fyrir grunnskólanemendur um heilsusamlega lífshætti sem skólaheilsugæslan hefur gefið út í samvinnu við Lýðheilsustöð.
    Í frumvarpi til fjárlaga 2011 er gert ráð fyrir að veittar séu sérstaklega 10 millj. kr. til Landspítala til að koma þar á fót þverfaglegu meðferðarteymi fyrir börn og unglinga með alvarlega offitu.
    Með vísan í Evrópusáttmála WHO þar sem fram kemur að jafnvægi verði að ríkja milli ábyrgðar stjórnvalda, samfélagsins og einstaklingsins sjálfs er nauðsynlegt að hafa í huga að þrátt fyrir allar forvarnir og úrræði gegn offitu verður hver einstaklingur samt sem áður að bera ákveðna ábyrgð á eigin heilbrigði og holdafari. Þegar um börn er að ræða flyst sú ábyrgð til forráðamanna þeirra. Þeim ber að sjá til þess að börn þeirra fái hollt og næringarríkt fæði og innræta þeim heilsusamlegar lífvenjur til að tryggja sem best heilbrigði þeirra og heilsusamlegt holdafar. Ef það er gert eru auknar líkur að þær lífsvenjur haldist ævina út og fyrirbyggi þannig þau vandamál sem af offitu geta hlotist.