Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 393. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 601  —  393. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson,
Jón Gunnarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Björgvin G. Sigurðsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðmundur Steingrímsson,
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Róbert Marshall.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laga þessara falla úr gildi að liðnum fimm árum frá gildistöku þeirra.

Greinargerð.


    Húshitunarkostnaður á landsbyggðinni hefur víða verið mjög sligandi fyrir afkomu heimila. Þrátt fyrir að allnokkru fé sé með niðurgreiðslum varið til þess að lækka kostnaðinn er hann mjög íþyngjandi. Því miður hefur þróunin orðið mjög til verri vegar á síðustu árum. Niðurgreiðslurnar sem hafa farið í það að lækka húshitunarkostnaðinn á svokölluðum „köldum svæðum“ hafa alls ekki haldið í við þróun orkukostnaðar og þess vegna hefur hann lagst með vaxandi þunga á heimilin í landinu. Þá hafa raunlaun almennt lækkað í landinu og því má ljóst vera að húshitunin tekur æ stærri toll af ráðstöfunarfé almennings sem býr á hinum „köldu svæðum“.
    Sem betur fer tókst bærilega til á fyrstu árum þessarar aldar. Frá árinu 2000 til 2002/2003 lækkaði kyndingarkostnaðurinn að raungildi um fimmtung, eða því sem næst, en síðan hefur þróunin verið á verri veg. Sérstaklega á þetta við á svæðum þar sem búa 200 manns eða færri. Þar hefur húshitunarkostnaður hækkað mjög verulega.
    Þróun þessi birtist mjög skýrt í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns þessa frumvarps sem birt er sem fylgiskjal. Vekja má athygli á eftirfarandi upplýsingum. Kostnaður við að hita 180 fermetra húsnæði í dreifbýli á svæði RARIK er nú talinn vera um 238 þús. kr. Kostnaðurinn var 166 þús. kr. árið 2000 og fór lægst niður í 138 þús. kr. árið 2002 reiknað til núgildandi verðlags. Hækkunin frá árinu 2000 er því um 43%, en hvorki meira né minna en 72% sé árið 2002 tekið til viðmiðunar. Ekki er fyrirséð að þessari þróun verði snúið við, heldur þvert á móti. Á næsta ári er ætlunin að draga úr niðurgreiðslum til húshitunarkostnaðar um 13,8%. Því er ljóst að húshitunarkostnaður mun hækka á hinum „köldu svæðum“ á næsta ári.
    Athyglisvert er að skoða til samanburðar þróun húshitunarkostnaðar á svæði Orkuveitu Reykjavíkur. Þar er talið að það kosti að kynda sambærilegt húsnæði um 93 þús. kr. á ári, nú eftir síðustu hækkun fyrirtækisins sem mjög var umtöluð. Árið 2000 var kostnaðurinn 100 þús. kr. og var lægstur í fyrra, eða um 72 þús. kr. á verðlagi ársins í ár.
    Í þeirri tillögu til byggðaáætlunar sem liggur fyrir Alþingi er kveðið afdráttarlaust upp úr um að hitaveituvæðing á Íslandi hafi nánast náð hámarki hvað hagkvæmni varðar. Þess er því bersýnilega ekki að vænta að jarðhitaleit verði haldið áfram að einhverju marki. Vonir um lækkun húshitunarkostnaðar með nýjum hitaveitum eru því augljóslega litlar að mati stjórnvalda. Þess í stað er bent á aðrar lausnir til umhverfisvænnar orkuöflunar sem mætti styrkja með svipuðum hætti og hitaveitur hafa verið styrktar fram að þessu. Í því sambandi er meðal annars vísað á notkun á varmadælum.
    Um varmadælur hefur talsvert verið fjallað og athuganir gerðar á fýsileika á notkun þeirra. Orkusetrið á Akureyri birtir til að mynda talsverðan fróðleik um þær á heimasíðu sinni ( www.orkusetur.is/varmadaelur). Þar er þessum möguleika meðal annars lýst svo: „Varmadælur hafa notið síaukinna vinsælda á norðlægum slóðum þar sem þörf er á upphitun húsa stóran hluta ársins. Í Svíþjóð eru t.d. 95% allra nýbygginga útbúnar varmadælum. Ísland hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að húshitun þar sem langstærsti hluti bygginga er hitaður með ódýrum jarðvarma. Um 8% notenda kynda þó hús sín með rafhitun þar sem varmadælur kæmu í sumum tilfellum til greina sem vænlegur kostur til að draga úr orkunotkun. Varmadæla samanstendur venjulega af dælubúnaði og leiðslum sem mynda lokað gas/vökvakerfi. Í gas/vökvakerfinu er ákveðið efni eða svokallaður vinnslumiðill sem breytir um fasa á leið sinni um kerfið. Við þessar fasabreytingar myndast varmaorka sem nýta má til húshitunar. Varmadæla skilar frá sér varmaorku til upphitunar en þarf til þess raforku til að knýja dælukerfið en sú raforka er þó mun minni en þyrfti við hefðbundna rafhitun. Orkuhagkvæmni varmadælu ræðst því af hlutfalli þeirrar orku sem fæst frá henni og orkunnar sem þarf til aðknýja hana.“
    Án þess að dómur sé lagður á það að öðru leyti er það svo að stofnkostnaður við varmadælukyndingu er talsverður, meðal annars vegna þess að þær bera margvísleg gjöld, svo sem tolla og 25,5% virðisaukaskatt. Með nýlegum breytingum á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar var opnað fyrir það að ríkið geti tekið þátt í stofnkostnaði við umhverfisvæna orkuöflun sem dregur úr rafhitun eða olíukyndingu. Þetta er sannarlega í rétta átt en þó er ljóst að betur má ef duga skal.
    Stofnkostnaður er talsverður og því mun taka nokkur ár að greiða hann niður með mögulegum ávinningi í lægri húshitunarkostnaði. Hætt er við að fáir sjái sér hag í því að fjárfesta í svona búnaði. Þess vegna er eðlilegt að ríkið afnemi tolla og endurgreiði virðisaukaskatt af varmadælum, að minnsta kosti tímabundið, til þess að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar með þessum hætti og er það lagt til í þessu frumvarpi.
    Þrátt fyrir endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á varmadælu er ljóst að húshitunarkostnaður á ýmsum landsvæðum verður hærri en viðunandi getur talist um ókomin ár. Áfram verður því að halda með niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði þar sem hann er lægstur jafnframt því að leita annarra leiða til þess að draga úr þessum mikla og sára kostnaði sem víða birtist okkur á þessu sviði á landsbyggðinni.
Fylgiskjal.


Svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um húshitunarkostnað.
(Þskj. 234, 27. mál á 139. löggjafarþingi.)


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver hefur verið árlegur og endanlegur húshitunarkostnaður heimila á einstökum orkuveitusvæðum frá árinu 2000 á núgildandi verðlagi?
     2.      Hver er framangreindur kostnaður núna eftir verðlagsbreytingar sem urðu 1. október sl.?
    Svar óskast sundurliðað þannig að kostnaðurinn sé reiknaður út fyrir: a. íbúð í fjölbýli100 fm, b. raðhús 140 fm, c. einbýlishús 180 fm, d. einbýlishús 250 fm.


    Þar sem hér á landi er að finna margar litlar hitaveitur sem þjóna fáum íbúum og þar með mjög mörg orkuveitusvæði, var að höfðu samráði við fyrirspyrjanda ákveðið að í svarinu yrði verð á húshitun einskorðað við færri svæði. Verðsamanburður nær yfir fjögur svæði þar sem raforka er notuð til húshitunar, þ.e. hjá Rarik í þéttbýli og dreifbýli og hjá Orkubúi Vestfjarða í þéttbýli og dreifbýli. Þá er skoðuð verðþróun hjá fjórum hitaveitum og þremur kyntum hitaveitum. Með því að skoða þessa þrjá flokka er talið að hægt sé að setja fram gott yfirlit yfir kostnað við húshitun hér á landi á umræddu tímabili.
    Ráðuneytið fékk aðstoð Orkustofnunar við að svara fyrirspurninni. Í útreikningum stofnunarinnar er horft til heildarverðs til neytenda með öllum sköttum og gert ráð fyrir niðurgreiðslum þar sem það á við. Hafa þarf í huga að á þessu tímabili hefur heildarfjöldi kWst. sem er niðurgreiddur ekki alltaf verið sá sami. Árið 2002 var hámark niðurgreiddra kWst. hækkað úr 30.000 kWst. á ári í 50.000 kWst. Árið 2005 var hámarkið aftur lækkað og þá í 35.000 kWst. Hámarkið var aftur hækkað árið 2006 og þá í 40.000 kWst og hefur haldist óbreytt síðan.
    Í tölunum er gert ráð fyrir sömu orkuþörf þrátt fyrir að mismikla orku þurfi til að viðhalda sama innihitastigi, eftir því hvar á landinu húsið er. Þá er gert ráð fyrir að ofnakerfi á svæðum þar sem framrásarhiti heits vatns er lágur, sé stærra en ella og er því gert ráð fyrir að hiti sé nýttur niður í 35°C. Þá er kyndikostnaður oft afar mismunandi eftir aldri og einangrun húsa. Getur t.d. nýtt gler og gluggaumbúnaður skipt sköpum í kyndingarkostnaði landsmanna.

1. Húsnæði: 100 m2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



2. Húsnæði: 140 m2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




3. Húsnæði: 180 m2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




4. Húsnæði: 250 m2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.