Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 296. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 606  —  296. mál.




Svar



dómsmála- og mannréttindaráðherra við fyrirspurn Arndísar Soffíu Sigurðardóttur um Lögregluskóla ríkisins.

     1.      Hversu miklum fjármunum er áætlað að verja árið 2011 til grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins annars vegar og framhaldsdeildar hins vegar?
    Rekstrarkostnaður grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins á árinu 2011 er áætlaður 34,6 millj. kr. Er þá ekki talinn með launakostnaður skólans en sá kostnaður færist á annað viðfang. Þá er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður framhaldsdeildar skólans árið 2011 verði 9,6 millj. kr. Rekstraráætlunin var lögð fram í október sl. og byggist á þeirri hagræðingarkröfu sem gerð hefur verið auk þess sem gert er ráð fyrir að boðaðar breytingar á lögreglunámi og kjörum lögreglunema nái fram að ganga. Frumvarp um breytingu á lögreglulögum hefur hins vegar ekki enn verið lagt fram. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að einungis sé greitt fyrir starfsnám en tvær annir verði ólaunaðar en lánshæfar frá LÍN.

     2.      Hversu margir lögreglumenn sem luku námi árin 2008, 2009 og 2010 eru ekki starfandi í dag samkvæmt skipun, sbr. 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996?
    Alls voru 114 lögreglunemar brautskráðir árin 2008, 2009 og 2010. Af þeim eru 45 skipaðir, 5 eru settir, 30 ráðnir og 34 eru ekki starfandi hjá lögreglu. Þannig eru 69 brautskráðir lögreglunemar ekki skipaðir lögreglumenn.

     3.      Hversu margir einstaklingar með almennt próf lögreglumanna eru á atvinnuleysisskrá?
    Eftir því sem næst verður komist eru tveir einstaklingar með almennt lögreglupróf á atvinnuleysisskrá.

     4.      Telur ráðherra að fresta eigi inntöku nýnema í Lögregluskóla ríkisins til ársins 2012 í ljósi efnahagsástandsins og niðurskurðar í almennri löggæslu?
    Undanfarin ár hefur Lögregluskóli ríkisins þróast mjög mikið og fyrirhugaðar eru frekari breytingar í sömu átt og stefnt hefur verið í síðustu ár. Í grófum dráttum má segja að smám saman hafi verið horfið frá fyrirkomulagi þar sem fastráðnir lögreglumenn voru sendir í lögregluskólann á fullum launum (og eftir atvikum dagpeningum) í því markmiði fyrst og fremst að uppfylla þarfir lögreglunnar sem vinnuveitanda til að efla starfsmenn sína til daglegra lögreglustarfa. Þess í stað hefur skólinn í vaxandi mæli tekið mið af skólastarfi almennt, þótt enn sé mjög tekið mið af þörfum lögreglunnar við námið. Um leið telur ráðuneytið að gæði námsins hafi stöðugt farið vaxandi undanfarin ár, enda hefur ásóknin í skólann verið mikil, þrátt fyrir að dregið hafi verið úr greiðslum fyrir nemendur, en fyrirhugað er að þær verði eingöngu bundnar við starfsnám í lögreglu hér eftir. Þess verður vart að nokkur hluti nemenda sækir sér menntun í skólann án þess að vera ákveðinn í að hyggja á starf í lögreglu eftir útskrift og má hafa það til marks um að menntun í skólanum þykir hafa nokkurt almennt gildi og nýtast víða í atvinnulífinu.
    Það leiðir af þessum breytingum að ekki er skynsamlegt né raunhæft að stefna fortakslaust að því að allir þeir sem útskrifast hafa úr skólanum skuli jafnóðum verða skipaðir lögreglumenn. Miklu skynsamlegra virðist vera að stefna að því að skólinn sé í stöðugum rekstri og útskrifi nógu marga lögreglumenn á hverju ári til að uppfylla þarfir lögreglunnar til lengri tíma. Reynslan sýnir að þörf lögreglunnar fyrir nýja lögreglumenn sveiflast mjög á milli ára og varasamt er að ætla sér að afleggja skólahald um lengri eða skemmri tíma vegna sveiflna í henni.