Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 608  —  220. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um mat á ávinningi Íslands af fríverslunarsamningum við Kína og Bandaríkin.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur verið lagt mat á efnahagslegan ávinning sem Ísland hefði af fríverslunarsamningum við Kína og Bandaríkin? Ef svo er, hver er niðurstaðan?

Bandaríkin.
    Ekki hefur verið lagt mat á efnahagslegan ávinning sem Ísland hefði af fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Varðandi kosti þess að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin er vísað til skriflegs svars við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar til utanríkisráðherra um mat ráðherra á kostum þess að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin (222. mál á yfirstandandi þingi). Í því segir að við innflutning til Bandaríkjanna frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en það eru þau kjör sem Íslandi býðst í dag, leggja Bandaríkin engan toll á fjölmargar vörur. Á það meðal annars við um langflestar sjávarafurðir sem Ísland flytur út til Bandaríkjanna og nokkrar helstu landbúnaðarafurðir sem Ísland leggur áherslu á í útflutningi, svo sem lifandi hross og drykkjarvatn. Lágir tollar eru lagðir á nokkrar útflutningsvörur Íslands til Bandaríkjanna, t.d. frosið og ferskt lambakjöt, smjör, lýsi, reiðtygi, kaðla og vogir. Í nokkrum afmörkuðum tilvikum er 10–15% tollur lagður á innflutning íslenskra afurða til Bandaríkjanna, t.d. á skyr, lifur, hrogn og sælgæti. Kostir við gerð fríverslunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna væru helst þeir að innflutningstollar sem lagðir eru á íslenskar vörur yrðu í mörgum tilfellum felldir niður. Fríðindatollur sá sem Bandaríkin bjóða þeim ríkjum sem þau hafa gert fríverslunarsamning við er í langflestum tilfellum 0% og má gera ráð fyrir að Íslandi yrðu boðin sömu kjör.
    Erfitt er að segja fyrir um niðurstöðu samningaviðræðna en gera má ráð fyrir að fríverslunarsamningur við Bandaríkin gæti leitt til aukins útflutnings á ýmsum landbúnaðarafurðum og öðrum afurðum og vörum sem í dag bera toll við innflutning. Gera má ráð fyrir að Bandaríkjamenn færu fram á gagnkvæmni hvað varðar markaðsaðgang og gerðu kröfu um niðurfellingu tolla við innflutning til Íslands á landbúnaðarafurðum, m.a. kjöti og kjötvörum og jafnvel mjólkurafurðum. Yrði fallist á þær kröfur hefði það óumflýjanlega í för með sér að m.a. íslenskt kjöt, t.d. lamba-, nauta- og svínakjöt, mundi lenda í samkeppni við innfluttar bandarískar kjötafurðir. Það gæti skilað sér í lægra vöruverði og auknu vöruúrvali fyrir neytendur en jafnframt auka samkeppni við innlenda framleiðendur.

Kína.
    Undanfara fríverslunarviðræðna Íslands og Kína má rekja til samkomulags sem þáverandi utanríkisráðherra Íslands og utanríkisviðskiptaráðherra Kína undirrituðu á árinu 2005. Það fól í sér að gerð yrði sameiginleg hagkvæmnikönnun um mögulegan fríverslunarsamning milli landanna. Ísland var fyrst Evrópuríkja sem Kína gerði slíkt samkomulag við. Árið 2006 lauk gerð hagkvæmnikönnunarinnar þar sem lagt var til að ríkin hæfu fríverslunarviðræður við fyrsta tækifæri, þar sem ljóst væri að bæði ríkin mundu hagnast á gerð fríverslunarsamnings.

Helstu niðurstöður hagkvæmnikönnunar milli Íslands og Kína vegna fríverslunarviðræðna.
    Í hagkvæmnikönnuninni frá 2006 segir að vöruviðskipti gegni almennt mikilvægu hlutverki við að stuðla að efnahagslegri þróun í Kína og á Íslandi. Vöruviðskipti milli ríkjanna séu umtalsverð en tollar og aðrar viðskiptahindranir dragi nokkuð úr tvíhliða viðskiptum. Reiknað sé með að lækkun eða niðurfelling tolla og annarra viðskiptahindrana mundi auka vöruviðskipti og þannig hafa jákvæð áhrif á hagkerfi beggja ríkjanna. Einnig kemur fram að þjónustuviðskipti milli Kína og Íslands hafi aukist töluvert frá því sem áður var. Lagt er til að íslensk og kínversk stjórnvöld auki samstarf á sviði þjónustuviðskipta í fríverslunarsamningi. Hvað varðar fjárfestingar segir að til þess að auka fjárfestingar milli landanna skuli stjórnvöld byggja á tvíhliða fjárfestingarsamningi ríkjanna frá 1994 og reyna að greina þá fjárfestingarmöguleika sem í boði eru.

Fríverslunarviðræður Íslands og Kína.
    Fríverslunarviðræður Íslands og Kína hófust í apríl 2007. Ráðuneytið telur að þau rök sem fram koma í áðurnefndri hagkvæmnikönnun eigi enn við í dag. Þess ber þó að geta að Kína hefur ekki orðið við kröfu Íslands um að tollar á tilteknum sjávarafurðum sem framleiddar eru hér á landi verði felldir niður eða lækkaðir þegar við gildistöku samnings en það skiptir töluverðu máli fyrir útflutningshagsmuni Íslands. Sama á við um kröfur Íslands á sviði þjónustuviðskipta en á því sviði ber enn nokkuð á milli samningsaðila. Í viðræðunum hefur Kína m.a. lagt fram kröfur um tímabundinn aðgang að íslenskum vinnumarkaði. Varðandi stöðuna í fríverslunarviðræðum landanna er að öðru leyti vísað til skriflegs svars við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar til utanríkisráðherra um stöðuna í fríverslunarviðræðum Íslands og Kína (221. mál yfirstandandi þings).