Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 3/139.

Þskj. 611  —  22. mál.


Þingsályktun

um rannsókn á Íbúðalánasjóði o.fl.


    Alþingi ályktar að á vegum þess fari fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Rannsökuð verði starfsemi sjóðsins frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004 og til ársloka 2010. Markmið rannsóknarinnar verði í fyrsta lagi að meta áhrifin af þessum breytingum, stefnu sjóðsins og einstökum ákvörðunum á þessum tíma á fjárhag sjóðsins og fasteignamarkaðinn í heild sinni, í öðru lagi að meta áhrifin af starfsemi Íbúðalánasjóðs á stjórn efnahagsmála og í þriðja lagi að leggja mat á hversu vel sjóðnum hefur tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu á þessu tímabili. Í kjölfar rannsóknarinnar fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs og fjármögnun húsnæðislánakerfisins á Íslandi.        
    Forsætisnefnd Alþingis verði falið að sjá um að rannsóknin fari fram í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um rannsóknarnefndir sem hún hefur lagt fram. Forseti Alþingis skipi þriggja manna nefnd til að vinna rannsóknina og skila um hana skýrslu til Alþingis innan sex mánaða frá skipun nefndarinnar. Til rannsóknarinnar verði fengnir sjálfstæðir aðilar sem hafi sambærilegar heimildir til skýrslutöku og gagnaöflunar og rannsóknarnefnd Alþingis hafði. Ef nauðsyn krefur setji Alþingi lög til að tryggja aðgengi rannsóknarnefndar að nauðsynlegum gögnum og upplýsingum.
    Í rannsókninni verði m.a. skoðuð ítarlega eftirfarandi atriði auk annarra atriða sem þarfnast úttektar:
     1.      Breytingarnar á sjóðnum 2004, m.a. undirbúningur þeirra og áhrif á fasteignamarkað og efnahagsmál.
     2.      Framganga banka á lánamarkaði til fasteignakaupa og viðbrögð Íbúðalánasjóðs við aukinni samkeppni banka um íbúðalán, m.a. vegna 100% lána bankanna og uppgreiðslna á lánum sjóðsins, t.d. hækkað lánshlutfall úr 80% í 90% og hækkuð hámarkslán.
     3.      Hvernig sjóðurinn sinnti verkefnum sínum, sérstaklega skv. 9. tölul. 9. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.
     4.      Viðbrögð sjóðsins við vaxandi þenslu á fasteignamarkaði.
     5.      Skuldabréfaskipti, úr húsbréfum í húsnæðisbréf, með því að binda uppgreiðslumöguleika sjóðsins.
     6.      Samskipti Íbúðalánasjóðs við Seðlabanka Íslands vegna lausafjár sjóðsins.
     7.      Kaup Íbúðalánasjóðs á greiðsluflæði lána frá bönkum og sparisjóðum með mun hærri hámarkslánsfjárhæð en reglugerð félagsmálaráðherra gerði ráð fyrir.
     8.      Tryggingar fyrir lánum sjóðsins þar sem lán til banka og sparisjóða voru ekki með veði.
     9.      Lánveitingar til byggingaverktaka, jafnvel án bankaábyrgða á ákveðnu tímabili.
     10.      Reglugerð félagsmálaráðherra nr. 896/2005 og hvernig hún samræmdist kröfum um áhættustýringu.
     11.      Viðskipti Íbúðalánasjóðs við verðbréfasjóði með verulegu tapi.
     12.      Helstu ástæður fyrir taprekstri sjóðsins frá 2008 og fyrirsjáanlegar afskriftir sjóðsins af ráðstöfunum sem taldar eru hér að framan.
     13.      Eftirlit Alþingis, ráðuneytis og stofnana á borð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands með starfsemi sjóðsins. Var það fullnægjandi?
     14.      Annað sem rannsóknarnefnd kann að komast að við rannsókn sína og telur ástæðu til að upplýsa Alþingi um.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2010.