Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 395. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 612  —  395. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002.

Flm.: Jón Gunnarsson, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson,


Einar K. Guðfinnsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Í stað orðsins „átta ára“ í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: tólf ára.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram til að breyta 12. gr. laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar en í þeim lögum er m.a. mælt fyrir um úthlutun fjár til niðurgreiðslu á kostnaði við hitun íbúðarhúsnæðis og um styrki til stofnunar nýrra hitaveitna eða yfirtöku starfandi einkaleyfisveitna.
    Fyrir gildistöku laganna hafði ekki verið til staðar löggjöf um ráðstöfun fjármuna ríkisins til að minnka orkukostnað en verulegu fé er ráðstafað á ári hverju til ýmissa aðgerða svo minnka megi orkukostnað notenda á þeim landsvæðum þar sem kostnaður við hitun er mestur. Þá felast einnig styrkir til nýrra hitaveitna í lögunum en vegna niðurgreiðslna á raforku til húshitunar er hvatinn til að leita að heitu vatni á köldum svæðum ekki mikill nema styrkur komi þar á móti. Þá er kostnaður við leit að heitu vatni og uppsetningu hitaveitna gríðarlega mikill. Við setningu laganna árið 2002 var miðað við að framlag til nýrra hitaveitna mundi nema sömu fjárhæð og sem nam fimm ára niðurgreiðslum til rafhitunar á dreifisvæði nýju veitunnar. Með lagabreytingu árið 2004 var viðmið fjárhæðarinnar síðan hækkað í átta ára niðurgreiðslur (sjá þingskjal 350 á 130. löggjafarþingi) með eftirfarandi rökum:
    „Þessi breyting er lögð til vegna þess að æskilegt er talið að stuðla að aukinni nýtingu jarðvarma til húshitunar eins víða um land og hagkvæmt þykir. Stefna stjórnvalda hefur verið að fjölga hitaveitum á landinu og er hin ráðgerða breyting hluti af þeirri stefnu. Komið hefur í ljós að á ákveðnum stöðum þar sem kannað hefur verið hvort stofna eigi hitaveitu og hverfa frá rafhitun hefur hitaveita ekki verið samkeppnisfær við niðurgreidda rafhitun. Einhugur er um að niðurgreiða rafhitun á þeim stöðum sem ekki eiga kost á öðrum leiðum til húshitunar. Jafnframt er ljóst að niðurgreiðslur til húshitunar mega ekki standa í vegi fyrir þróun og uppbyggingu kerfis til húshitunar með jarðhita. Einnig er bent á að þó að þessi hækkaða viðmiðun styrks til einstakra hitaveitna leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs til einstakra hitaveitna í upphafi, er breytingin til þess fallin að draga úr heildarkostnaði við niðurgreiðslu húshitunar þegar til lengri tíma er litið.“
    Flutningsmenn frumvarps þessa telja að framangreind rök eigi ennþá við um styrki til nýveituframkvæmda en að nauðsynlegt sé að auka enn við styrkina, enda eru köldu svæðin sem eftir eru afar fámenn og því erfitt fyrir íbúa að standa að umfangsmiklum framkvæmdum við leit að heitu vatni og uppsetningu hitaveitu. Því er nauðsynlegt að styðja vel við bakið á íbúum þessara svæða svo að landsmenn geti sem allra flestir búið við sambærilegar aðstæður til upphitunar á íbúðarhúsnæði.
    Í frumvarpinu felst að hin hækkaða viðmiðun tekur einungis til hitaveitna sem taka til starfa eftir að lagabreytingin tekur gildi. Um það hvenær hitaveita telst hafa tekið til starfa eða stækkun hennar tekin í gagnið ræður úrslitum hvenær notendur hennar eru tengdir og byrja að njóta þjónustu hitaveitunnar.