Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 192. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 618  —  192. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um friðlýst svæði og framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni.

     1.      Hefur verið gerð áætlun um hvernig markmiðum nýafstaðins ársfundar aðildarríkja samningsins um líffræðilega fjölbreytni verður náð á Íslandi næstu 10 árin? Óskað er svars annars vegar hvað varðar markmiðið um að verndarsvæði hafsvæða verði stækkuð þannig að þau nemi 10% í heild og hins vegar að verndarsvæði á landi verði stækkuð þannig að þau nái yfir 17% af þurrlendi.
    Þetta hefur ekki verið gert enn þá, enda er frekar stutt síðan 10. aðildarríkjafundi samningsins um líffræðilega fjölbreytni lauk í Nagoya í Japan, að morgni 30. október sl., þar sem tæplega 50 ákvarðanir voru teknar um margvísleg málefni samningsins og áherslur í framkvæmd hans fram til ársins 2020. Eitt af stærri málum fundarins var ný stefnumótun fyrir samninginn með 20 markmiðum. Eitt af þessum markmiðum kveður á um að árið 2020 verði á heimsvísu búið að friða 17% þurrlendis og ferskvatnssvæða og 10% haf- og strandsvæða, einkum þeirra sem hafa sérstaka þýðingu fyrir varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og þjónustu vistkerfa. Það er rétt að ítreka að stefnan er rammi fyrir framkvæmd samningsins á heimsvísu og framkvæmd markmiðanna er sveigjanleg, tekur mið af aðstæðum í hverju landi fyrir sig og hvert ríki aðildarríki samningsins er ekki skuldbundið til þess að uppfylla þessi markmið að fullu eða skilyrðislaust.
    Samþykktir aðildarríkja fundarins gera ráð fyrir því að þessum atriðum verði búið að koma inn í stefnur og framkvæmdaáætlanir ríkja fyrir árið 2012. Á vegum ráðuneytisins er nýlokið við vinnu að áætlun um framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um líffræðilega fjölbreytni og þar sem gert er ráð fyrir að á næstu tveimur árum verði unnið að endurnýjun stefnu um líffræðilega fjölbreytni og þá verði farið yfir það hvernig niðurstöður fundarins verða færðar inn í stefnuna.

     2.      Hversu mörg og hversu stór svæði í sjó hér við land eru friðlýst eða undir annarri vernd samkvæmt lögum?
    Í dag eru 39 eyjar, haf- og strandsvæði friðlýst á grundvelli laga um náttúruvernd og ná þau yfir um það bil 455.000 ha svæði. Þess ber að geta að inni í þessari tölu er umfangsmikið hafsvæði, um 280.000 ha, sem lögin um verndun Breiðafjarðar afmarka, en hafsvæði utan marka stórstraumsfjöru nýtur ekki friðunar samkvæmt lögunum að mati margra sérfræðinga.
    Fjölmörg svæði sem friðuð eru sem fiskveiðistjórnarsvæði á grundvelli laga um stjórn fiskveiða og heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið stuðla að verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Þetta eru einkum svæði sem hafa verið lokuð fyrir veiðum með botnvörpu um lengri tíma. Frá áramótum 2006 hafa fimm kóralsvæði undan Suðurströndinni verið friðuð fyrir veiðum að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar og nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði árið 2004 til þess að gera tillögur um friðun viðkvæmra hafsvæða. Í tillögum nefndarinnar var lagt til að áfram yrði unnið að undirbúningi friðunar fleiri viðkvæmra svæða í hafinu við Ísland á grundvelli grunnviðmiða og rannsókna á botngerð Íslandsmiða. Nýlegar rannsóknir á botngerð og kóralsvæðum fyrir Suðurlandi hafa leitt í ljós nokkur heilleg kóralsvæði sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að verði friðuð.

     3.      Er fyrirhugað að friðlýsa eða vernda með öðrum hætti fleiri svæði í sjó?
    Í samræmi við nýsamþykkta stefnu samningsins um líffræðilega fjölbreytni er fyrirhugað að fjölga friðlýstum svæðum í sjó í þeim tilgangi að koma upp heildstæðu neti verndarsvæða sem hafi þýðingu fyrir varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni eða viðkvæmra vistkerfa og falli að markmiðum Samningsins um líffræðilega fjölbreytni og annarra alþjóðlegra samninga, svo sem OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins. Þetta er áætlað að gera í samstarfi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og stofnanir ráðuneytanna og í samvinnu við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Haldinn hefur verið samráðsfundur með fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins í kjölfar ráðherrafundar OSPAR í september sl., þar sem farið var yfir markmið og starf OSPAR hvað varðar verndarsvæði í hafi, en þar var ákveðið að vinna frekar að þessum málum í samstarfi ráðuneytanna og viðkomandi stofnana þeirra.

     4.      Hversu stór hluti þurrlendis er friðlýstur á Íslandi eða undir annarri vernd samkvæmt lögum, annars vegar með jöklum og hins vegar utan þeirra?
    Heildarflatarmál svæða sem friðlýst eru á grundvelli laga um náttúruvernd eða með sérlögum er rúmlega 2,1 millj. ha, sem samsvarar um 21% landsins. Jöklar þekja um 830.000 ha af friðlýstum svæðum, en þar er Vatnajökull fyrirferðarmestur auk Snæfellsjökuls og hluta af Hofsjökli. Utan jökla eru því friðlýst landsvæði um 1.270.000 ha að stærð.

     5.      Er fyrirhugað að friðlýsa eða vernda með öðrum hætti svæði á landi?
    Í samræmi við náttúruverndaráætlun 2009–2013 er unnið að því að friðlýsa um 20 ný svæði sem mikilvæg eru fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni, einkum plantna, fugla og nokkurra hryggleysingja eða jarðfræði. Auk þess er hafinn undirbúningur að aukinni friðun birkiskóga í samræmi við tillögur nefndar um verndun og endurheimt íslenskra birkiskóga. Undirbúningur að friðlýsingu tveggja svæða er á lokastigi en það eru stækkun friðlands og búsvæðis blesgæsa við Hvanneyri og Hálsar í Berufirði sem búsvæði brunnklukku.
    Eftirfarandi tafla sýnir helstu svæðin sem unnið er að því að friðlýsa í samræmi við náttúruverndaráætlun, tillögur um stærð þeirra og megintilgang friðlýsingar:

Svæði Stærð í ha Markmið friðunar
Snæfjallaströnd 16.540 Plöntuverndun
Eyjólfsstaðaskógur 330 Plöntuverndun
Egilsstaðaskógur 2.470 Plöntuverndun
Gerpissvæðið 15.664 Plöntuverndun
Steinadalur, stækkun VJÞ 5.160 Plöntuverndun
Undirhlíðar 19.980 Búsvæði hryggleysingja
Orravatnsrústir 7.300 Votlendi
Þjórsárver, stækkun 77.660 Votlendi
Langisjór, stækkun VJÞ 40.400 Vistgerðir og jarðfræði
Vestmannaeyjar 2.000 Sjófuglar
Austara Eylendið 4.700 Búsvæði fugla
Geysir 2.200 Jarðfræði
Álftanes og Skerjafjörður 3.700 Búsvæði fugla
Látrabjarg og Rauðisandur 48.600 Búsvæði fugla
Látraströnd og Náttfaravíkur 64.000 Plöntuverndun
Álftanes, Akrar og Löngufjörur 46.000 Búsvæði fugla
Njarðvík og Loðmundarfjörður 46.800 Plöntuverndun

     6.      Hefur verið gerð áætlun um hvernig draga megi úr eyðingu búsvæða, sbr. markmið ársfundarins um 50–100% árangur fyrir 2020?
    Vinna við heildstæða áætlun um það hvernig draga megi úr eyðingu búsvæða á grundvelli samþykktar fundar aðildarríkja samningsins um líffræðilega fjölbreytni er ekki hafin, en undirbúningur að þessu starfi er að hefjast. Það er ljóst að slíka áætlun þarf að byggja á góðum gögnum um stöðu og ástand búsvæða og mati á því hvaða búsvæði eru í mestri hættu. Jafnframt þarf að afla upplýsinga um það hvar eyðing búsvæða á sér stað, hversu mikil hún er og hvernig heppilegast er að draga úr eyðingunni. Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins vinna gegn eyðingu búsvæða og endurreisn þeirra í samvinnu við bændur og sveitarfélög og fleiri aðila. Mikilvægt er að nýta starf og þekkingu þessara stofnana, auk Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og annarra rannsóknastofnana við gerð áætlunar um aðgerðir gegn eyðingu búsvæða miðað við markmið samningsins. Þetta verður einn mikilvægasti þátturinn í endurskoðun á stefnumótun stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni í kjölfar Nagoya-samþykktanna.