Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 402. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 676  —  402. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

     1.      Hver er formaður úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og hvenær var hann skipaður?
    Áslaug Árnadóttir hdl. er núverandi formaður úrskurðarnefndarinnar. Hún var skipuð formaður nefndarinnar í maí 2010. Guðjón Ólafur Jónsson hrl. var formaður úrskurðarnefndarinnar frá því að hún var sett á stofn á árinu 2000 þar til hann óskaði eftir því að láta af störfum í lok ársins 2009. Lauk hann við afgreiðslu allra mála sem borist höfðu nefndinni fram til 1. janúar 2010.

     2.      Hvað fá nefndarmenn greitt fyrir setu í nefndinni og hver greiðir kostnaðinn af störfum nefndarinnar?
    Nefndarmenn fá greiddar 6.500 kr. fyrir hvern fund sem þeir sitja, en formaður fær 8.500 kr. fyrir hvern fund. Þá er greitt sérstaklega fyrir samningu hvers úrskurðar, 28.000 kr.
    Í 15. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina er fjallað um málskotsgjald og greiðslu kostnaðar við störf nefndarinnar. Í ákvæðinu kemur fram að viðskiptamenn greiða málskotsgjald við afhendingu kvörtunar. Gjaldið er 5.000 kr. fyrir einstaklinga, 15.000 kr. fyrir einstaklinga í atvinnurekstri og 30.000 kr. fyrir lögaðila. Aðilar fá málskotsgjald endurgreitt ef kröfur þeirra eru teknar til greina að hluta eða öllu leyti. Að öðru leyti greiða fjármálafyrirtæki, sem aðild eiga að nefndinni, kostnað við störf nefndarinnar. Fjármálaeftirlitið greiðir kostnað sem leiðir af vistun nefndarinnar hjá stofnuninni og laun starfsmanns sem starfar fyrir nefndina í hlutastarfi.

     3.      Hversu margir úrskurðir hafa fallið hjá nefndinni á árinu 2010?
    Á fyrri hluta ársins 2010 úrskurðaði nefndin í 29 af þeim 66 málum sem bárust nefndinni á árinu 2009 og ekki hafði verið lokið við að úrskurða í fyrir árslok 2009. Þá hefur nefndin úrskurðað í 26 af þeim 44 málum sem borist hafa nefndinni á árinu 2010.
    Frá upphafi hafa nefndinni borist að meðaltali um 18–20 mál á ári. Á árunum 2009 og 2010 hefur málum fyrir nefndinni fjölgað mjög, en þau voru eins og áður sagði 66 á árinu 2009 og í lok desember 2010 höfðu nefndinni borist 44 mál frá ársbyrjun.

     4.      Hver er að meðaltali málshraðinn fyrir nefndinni og er hann í samræmi við þann fjögurra vikna frest sem mælt er fyrir um í samþykktum fyrir úrskurðarnefndina?
    Í 9. gr. samþykkta fyrir nefndina er fjallað um málsmeðferð fyrir nefndinni. Þar segir að eftir að nefndin hefur móttekið kvörtun skuli nefndin senda gögn sem fylgja kvörtun til þess fjármálafyrirtækis er kvörtun varðar. Skal fjármálafyrirtæki senda athugasemdir til nefndarinnar innan þriggja vikna frá móttöku kvörtunar, nema lengri frestur sé veittur. Þegar athugasemdir fjármálafyrirtækis hafa borist eru þær sendar kvartanda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan tveggja vikna. Þegar þær athugasemdir hafa borist eða fyrir liggja upplýsingar um að kvartandi hyggist ekki gera athugasemdir fær nefndin öll gögn málsins í hendur. Þegar nefndin er komin með öll gögn í hendur getur hún á grundvelli 10. gr. farið í frekari gagnaöflun og kallar nefndin í mörgum tilvikum eftir frekari gögnum frá aðilum máls. Þegar öll gögn hafa borist nefndinni byrjar fjögurra vikna frestur 11. gr. samþykktanna að líða.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um meðalmálshraða hjá nefndinni, en ljóst er að sá tími sem líður frá því að mál eru send nefndinni þar til afgreiðslu þeirra er lokið getur verið mjög mislangur. Fer málsmeðferðartíminn bæði eftir umfangi mála og skýrleika kvörtunar og þeirra gagna sem henni fylgja. Vegna mikillar fjölgunar mála fyrir nefndinni að undanförnu hefur nefndin ekki í öllum tilvikum getað lokið við gerð úrskurða innan þess fjögurra vikna frests sem mælt er fyrir um í 11. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefndina.

     5.      Hefur nefndin ávallt skilað ársskýrslu, eins og gert er ráð fyrir í samþykktum fyrir hana?
    Í 3. mgr. 11. gr. samþykkta fyrir nefndina segir að nefndin útbúi ársskýrslu þar sem gerð skuli grein fyrir störfum nefndarinnar og birtir þeir úrskurðir sem nefndin telur stefnumarkandi án nafngreiningar aðila. Skal ársskýrsla gefin út fyrir lok apríl vegna næstliðins árs, nema málafjöldi gefi ekki tilefni til árlegrar útgáfu að mati nefndarinnar.
    Samantekt úrskurða nefndarinnar fyrir hvert starfsár frá 2000 til 2009 er birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Ársskýrslu fyrir árið 2010 verður skilað fyrir lok apríl 2011 eins og samþykktir nefndarinnar gera ráð fyrir.