Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 412. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 781  —  412. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um stjórnsýsluskóla Stjórnarráðsins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig er hinn nýi stjórnsýsluskóli Stjórnarráðsins fjármagnaður? Hverjir stýra honum, hverjir veljast til kennslu og hverjar eru greiðslur til þeirra?

    Síðastliðið haust hleypti forsætisráðuneytið af stokkunum verkefni sem hlaut nafnið stjórnsýsluskóli Stjórnarráðs Íslands. Á vegum skólans hefur m.a. verið boðið upp á námskeið fyrir nýja starfsmenn Stjórnarráðsins, ráðherra, aðstoðarmenn ráðherra og ráðuneytisstjóra. Á það var lögð áhersla í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem út kom á síðasta ári að fjölga þyrfti í þeim hópi starfsmanna Stjórnarráðsins sem eru vel menntaðir og þjálfaðir og hafa getu til að takast á við mjög flókin og krefjandi verkefni. Þá er í skýrslu nefndar um starfsskilyrði stjórnvalda sem forsætisráðuneytið gaf út árið 1999 vakin sérstök athygli á því að ekki sé starfræktur hér á landi skóli fyrir starfsmenn stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga eins og tíðkist í flestum grannlöndum. Áréttað er í skýrslunni að þegar nýir starfsmenn komi til starfa sem fái það hlutverk að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu borgaranna séu þeir ekki sendir á grunnnámskeið til að læra þær almennu reglur stjórnsýsluréttarins sem gilda um meðferð opinbers valds við töku stjórnvaldsákvarðana.
    Markmiðið með skólanum er að bæta hér úr og auka hæfni starfsmanna Stjórnarráðs Íslands með starfstengdri fræðslu en einkum verði beint sjónum að sviðum þar sem aðrir hafa ekki boðið fram þjónustu. Kjarninn í námsframboði mun lúta að grunnfræðslu um stjórnsýslurétt, upplýsingarétt og siðareglur en einnig verða tekin fyrir önnur efni sem varða Stjórnarráðið sem heild.
    Skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu hefur stýrt þessu verkefni. Kostnaði við verkefnið hefur verið haldið í lágmarki. Forsætisráðuneytið hefur greitt kostnað við þau námskeið sem hafa verið haldin, svo sem vegna leigu á rútu og kennslusal og vegna kaffiveitinga. Áformað er að framvegis muni hvert ráðuneyti fyrir sig alla jafna greiða væg þátttökugjöld fyrir starfsmenn sína til að mæta kostnaði.
    Leiðbeinendur koma alla jafna úr röðum starfsmanna Stjórnarráðsins en einnig hafa verið fengnir sérfræðingar utan Stjórnarráðsins ef þörf krefur. Hugmyndin er að stjórnsýsluskólinn fái til liðs við sig helstu sérfræðinga á hverju sviði og starfi jafnt með öllum háskólum landsins í samræmi við áherslur þeirra. Starfsemi stjórnsýsluskólans verður þróuð áfram, m.a. í samráði við fjármálaráðuneytið, og fyrirhugaðir eru fundir með fulltrúum háskóla til þess að ræða hugsanlega samvinnu við aðra háskóla á jafnræðisgrundvelli. Eina greiðslan sem innt hefur verið af hendi til leiðbeinenda er til dr. Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í Háskóla Íslands. Hann fékk í desember sl. greiddar 52.000 kr. fyrir fyrirlestur sem hann hélt á námskeiði fyrir ráðherra og aðstoðarmenn.