Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 834  —  388. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    
    Þriðji minni hluti hefur ítrekað lagt til fyrirvara þess efnis að felli þar til bært stjórnvald eða dómstóll úrskurð sem feli í sér að engin lagaleg skuldbinding hvíli á ríkissjóði til að greiða skuldbindingar íslenska tryggingarsjóðsins vegna Icesave-reikninganna þá verði tryggt að efni samkomulagsins taki mið af þeim veruleika. Fjölmörg lögfræðileg álit, þar á meðal frá erlendum lögmannsstofum og lagaprófessorum, gefa til kynna að verulegur vafi leiki á hvort slík ríkisábyrgð sé til staðar. Hefur auk þess verið vísað til þess að í skýrslu breska fjármálaeftirlitsins (FSA) frá árinu 2009 um áhættuhorfur í fjármálakerfinu sé að finna ummæli sem styðji slíkar efasemdir.
    Í álitsgerð sem samin var af fjórum lögspekingum að beiðni fjárlaganefndar, dags. 22. desember 2010, er reynt að leggja mat á áhættur samfara því að hafna samþykkt frumvarpsins og leiða ágreininginn til lykta fyrir þar til bærum dómstólum. Sérfræðingarnir benda á að úrslit málsins mundu að verulegu leyti ráðast af málatilbúnaði aðila en í álitinu er leitað svara við því hver möguleg niðurstaða gæti orðið og þrír kostir nefndir í því sambandi. Sjálfir eru sérfræðingarnir ekki á einu máli um hver niðurstaðan yrði en telja í besta falli að íslenska ríkið yrði sýknað af kröfum viðsemjendanna.
    Í ljósi þeirrar áhættu sem samþykkt frumvarpsins hefur í för með sér hefði að mati 3. minni hluta verið þörf á að afla ítarlegri upplýsinga um hversu raunhæfur kostur það er að fá úr því skorið fyrir þar til bærum dómstólum hvort kröfur viðsemjenda okkar séu lögmætar og hvort hagsmunir þjóðarinnar yrðu best varðir með málaferlum. Því var hafnað í fjárlaganefnd af meiri hluta nefndarinnar.
    Undirritaður hefur lagt áherslu á að byggja afstöðu sína á réttum og ítarlegum upplýsingum og fá óháða sérfræðinga til að meta alla þætti málsins. Við vinnslu málsins í fjárlaganefnd var fyrir 2. umræðu að miklu leyti komið til móts við þær kröfur en við vinnslu málsins fyrir 3. umræðu var annað uppi á teningnum. Sterkar vísbendingar höfðu komið fram sem drógu í efa að heimtur úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf. yrðu jafngóðar og áður hafði verið talið. Er það fyrst og fremst af þeirri ástæðu að vafi leikur á hvort NBI hf. geti staðið undir afborgunum af skuldabréfi á milli bankanna. Heimildum ber ekki saman um þetta atriði og nauðsynlegt hefði verið að kanna stöðuna betur, ekki síst í ljósi þess að efnahags- og viðskiptaráðherra fullyrti á fundum nefndarinnar að eiginfjárstaða stóru bankanna þriggja væri slæm. 3. minni hluti gagnrýnir harðlega að meiri hluti nefndarinnar skuli hafa látið undir höfuð leggjast að rannsaka stöðuna betur í ljósi hinna miklu hagsmuna sem eru í húfi.
    Eins og áður hefur komið fram telur 3. minni hluti þá samninga sem nú liggja á borðinu um margt sanngjarna fyrir utan það atriði að hin efnahagslega áhætta hvílir öll á herðum Íslendinga. Er hér um veigamikið atriði að ræða sem felur í sér að endanlegur kostnaður ríkisins gæti numið 233 milljörðum kr.
    Það sem eftir stendur er sú grundvallarspurning hvort Íslendingum beri yfir höfuð skylda til að taka á sig skuldir einkafyrirtækis. Undirritaður hefur þess vegna ávallt gert fyrirvara við ábyrgð ríkisins. Engan slíkan fyrirvara er að finna í frumvarpinu og hefur 3. minni hluti lagt fram breytingartillögu þess efnis, sbr. þskj. 779.

Alþingi, 15. febr. 2011.



Höskuldur Þórhallsson.