Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 332. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 866  —  332. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um réttindi fatlaðs fólks.

     1.      Hvenær má vænta þess að framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla verði kynnt?
    17. desember síðastliðinn var samþykkt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, og eru breytingalögin nr. 152/2010. Samkvæmt 43. gr. þeirra var bætt ákvæði til bráðabirgða XIII við lög um málefni fatlaðra. Þar er kveðið á um að ráðherra skuli eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Í henni skal sett fram stefna í málefnum fatlaðs fólks þar sem meðal annars verða tímasettar aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu.

     2.      Hvernig miðar endurskoðun laga og reglugerða með tilliti til innleiðingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Í byrjun árs 2008 skipaði þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra nefnd sem skyldi kanna hvort lög og reglugerðir hér á landi uppfylltu kröfur sem lagðar eru á þau ríki sem fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var undirritaður að hálfu Íslands 30. mars 2007. Nefndin skilaði áliti í byrjun árs 2010 og lagði þá fram tillögur í 13 liðum sem tryggt gætu að íslensk lög og reglugerðir uppfylltu kröfur samningsins. Tillögur nefndarinnar hafa verið til umfjöllunar í ráðuneytinu en jafnframt hefur formlega og óformlega verið leitað eftir athugasemdum hjá hagsmunaaðilum og öðrum þeim sem láta sig málið varða.
    Á grundvelli tillagna nefndarinnar og þeirra athugasemda sem hafa borist hefur ráðuneytið haft málið til skoðunar og á árinu verður fullgildingin undirbúin. Ekki er ennþá ljóst hvenær þeirri vinnu lýkur.

     3.      Hvenær hyggst ráðherra leggja fram frumvarp um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Í lögunum nr. 152/2010 er kveðið svo á um að velferðarráðherra skuli fyrir 1. október 2011 leggja fram tillögu til þingsályktunar þar sem meðal annars verða tímasettar aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Velferðarráðuneytið gerir ráð fyrir því að nákvæm tímasetning lögfestingar liggi fyrir eigi síðar en 1. október næstkomandi.