Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 532. máls.

Þskj. 869  —  532. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga
og ríkisskjaldarmerkið, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu, enda sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð.
     b.      Á eftir 1. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ráðuneytið veitir leyfi til að nota þjóðfánann í vörumerki sem skal skrásetja.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.
                  Ráðherra sker úr um álitaefni og ágreining sem upp kann að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.
         

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Almennt.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 138. löggjafarþingi en fékk ekki endanlega afgreiðslu. Frumvarpið er nú lagt fram í annað skipti með þeirri breytingu að horfið er frá því að fella niður leyfisskyldu fyrir notkun fánans í vörumerkjum sem skal skrásetja. Er breytingin í samræmi við ábendingu og að höfðu samráði við Einkaleyfastofu, sbr. umsögn Einkaleyfastofu til allsherjarnefndar Alþingis á 138. löggjafarþingi, um að það væri æskilegra og í betra samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar að samþykki stjórnvalds þyrfti fyrir notkun þjóðfánans í skrásett vörumerki. Umsagnir sem bárust allsherjarnefnd voru almennt jákvæðar og er frumvarpið því lagt fram óbreytt að öðru leyti en fyrr greinir.
    Gildandi lög um þjóðfána Íslendinga eru að stofni til frá árinu 1944. Hefur saga fánans verið nátengd sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og síðar fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Árið 1995 var skipuð nefnd til að endurskoða lög nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, einkum verndarákvæði þeirra í 12. gr. en einnig önnur ákvæði sem sett höfðu verið fánanum til verndar. Í framhaldi af vinnu nefndarinnar var lögunum breytt með lögum nr. 67/1998. Ein helsta breyting laganna fólst í því að forsætisráðuneytið öðlaðist heimild til að veita leyfi til notkunar fánans í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða í auglýsingu á vörum enda væri starfsemi sú sem í hlut ætti að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælti fyrir um í reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Voru rök fyrir þessari heimild m.a. þau að auka þyrfti frjálsræði um notkun fánans með sérstöku tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Tillaga að reglugerð fylgdi frumvarpinu en hún var þó aldrei sett, aðallega vegna þess að örðugt reyndist að skilgreina hlutlægar gæðaviðmiðanir sem nýst gætu til að uppfylla þetta skilyrði laganna á viðunandi hátt. Hefur því ekki verið hægt að verða við beiðnum um sérstakt leyfi til að nota fánann. Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til í þessu frumvarpi er að gera möguleikann á notkun þjóðfánans til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu aðgengilegri en áður hefur verið. Má ætla að notkun fánans í slíkum tilvikum geti verið til þess fallin að efla atvinnulíf og efnahag landsmanna og verka sem jákvætt skref í endurreisn á íslensku efnahagslífi. Má í þessu sambandi líta til framkvæmdar í Danmörku en þar hefur danski fáninn um langt skeið verið mikið notaður í markaðssetningu á dönskum vörum án þess að til þess hafi þurft sérstakt leyfi. Hefur notkun fánans í þessum tilgangi haft jákvæða þýðingu fyrir danska framleiðslu, svo sem í landbúnaði, og verið ákveðinn mælikvarði á gæði. Þrátt fyrir þá erfiðleika sem mætt hafa mörgum íslenskum fyrirtækjum síðustu missirin hefur framleiðsla á íslenskum afurðum eflst og dafnað og ber að styðja við þann vöxt. Áfram verður þó að hafa það að leiðarljósi að í engu sé skert virðing við fánann, hvorki í orði né verki.

2. Nánar um efnisatriði frumvarpsins.
    Ákvæði 4. mgr. 12. gr. laganna fjallar m.a. um heimild til notkunar á fánanum á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu. Sú breyting er gerð á málsgreininni að í stað þess að leyfi þurfi hjá forsætisráðuneyti til notkunar fánans í þessum tilgangi er heimildin orðin almenn en að uppfylltum skilyrðum. Þá er fellt á brott það skilyrði að starfsemi sú sem í hlut á sé að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælir fyrir um með reglugerð. Í staðinn segir að starfsemi sú sem í hlut eigi sé „íslensk að uppruna“ og áfram þarf hún að vera þannig að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Markmið þessarar breytingar er að auka möguleika á notkun fánans, íslenskri framleiðslu og þjónustu til framdráttar. Þrátt fyrir að skilyrði um gæði sé fellt á brott er sú krafa eðli máls áfram til staðar, samofin því að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Sama á við um orðalagið „íslensk að uppruna“. Orðalagið er nýtt í lögunum og leggur þær skyldur á herðar þeim sem nota fánann að það sé ekki gert á röngum forsendum eða villandi máta. Þannig má gera ráð fyrir að það feli í sér að matvæli teljist íslensk að uppruna ef t.d. grænmeti og ávextir eru ræktaðir hér á landi, kjöt er af íslenskum húsdýrum eða villibráð og mjólkurvörur úr íslenskri mjólk. Ekki nægi að vörurnar séu innfluttar en pakkaðar hér á landi. Öðru máli kann að gegna um annan varning sem geti vel talist íslenskur þó úr erlendu hráefni sé, t.d. framleiðsla á íslenskri hönnun, húsgögnum eða fatnaði, o.s.frv. Þá er lagt til að forsætisráðherra fái sérstaka heimild til að setja nánari reglur um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæðinu og tiltekið að það sé hlutverk forsætisráðherra að skera úr um álitaefni og ágreining sem upp kann að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt framangreindu.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 34/1944, um
þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem gera möguleikann á notkun þjóðfánans til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu aðgengilegri en áður hefur verið.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.