Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 331. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 907  —  331. mál.
Viðbót, fylgiskjal.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar.

     1.      Hefur framkvæmdaraðili Kárahnjúkavirkjunar uppfyllt þau 20 tölusettu skilyrði sem sett voru í úrskurði umhverfisráðherra 20. desember 2001 um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og ef svo er, hvernig var þeim framfylgt?
    Í úttekt Umhverfisstofnunar á framkvæmd skilyrða í úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar frá 20. desember 2001 sem unnin var að beiðni umhverfisráðherra á sl. ári kemur fram að af þeim tuttugu skilyrðum sem sett voru fram í úrskurði ráðuneytisins á sínum tíma hafi fjórtán skilyrði verið að fullu uppfyllt, fimm skilyrði verið uppfyllt að því marki sem hægt er þar sem þau ná yfir lengra tímabil og eitt skilyrði hafi verið uppfyllt að hluta. Varðandi hvernig skilyrðum hefur verið framfylgt vísast til umræddrar úttektar Umhverfisstofnunar sem er meðfylgjandi.

     2.      Telur ráðherra að fullnægjandi bakgrunnsupplýsinga hafi verið aflað um ástand náttúrufars og lífríkis á áhrifasvæðum framkvæmdanna áður en þær hófust?
    Með vísan til skilyrða ráðuneytisins í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hefur þeirra gagna sem krafist var verið aflað en niðurstöður hluta rannsókna hafa ekki verið birtar með formlegum hætti.

     3.      Komu upp tilvik eða aðstæður á framkvæmdatíma sem kölluðu á frekari rannsóknir en þær sem mat á umhverfisáhrifum byggðist á?
    Ekki er kunnugt um að upp hafi komið atvik sem beinlínis kölluðu á frekari rannsóknir en þær sem gerð var grein fyrir í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

     4.      Hafa komið fram ábendingar um nauðsyn frekari rannsókna eða lengri vöktunartíma en fram kemur í skilyrðunum og ef svo er, hvaða ábendingar?
    Ekki hafa komið fram ábendingar um nauðsyn frekari rannsókna eða lengri vöktunartíma en fram kemur í skilyrðum mats á umhverfisáhrifum. Í þremur skilyrðum af tuttugu var gerð krafa um tíu ára vöktunartíma sem ekki er liðinn. Í svörum Landsvirkjunar, varðandi framkvæmd skilyrða, kemur fram að ákveðið verði í samráði við rannsóknaraðila, að liðnum þeim tíma sem ráðherra krafðist, hvort tíu ára tíminn, sem kveðið er á um í skilyrðum, sé nægilegur eða hvort ástæða verði til frekari vöktunar eða rannsókna.

     5.      Hvernig hefur verið fylgst með náttúrufari og lífríki á áhrifasvæði Hálslóns og Kárahnjúkavirkjunar að framkvæmdum loknum?
    Varðandi vöktun á völdum fuglastofnum við Lagarfljót gerði Landsvirkjun samninga við Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofu Austurlands um vöktun fuglastofna á svæðinu. Kveðið var á um tíu ára vöktun í skilyrðum ráðherra en að liðnum þeim tíma munu rannsóknaraðilar meta hvort þörf sé á frekari vöktun samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun.
    Landsvirkjun gerði samning við Hafrannsóknastofnunina um vöktun botndýralífs í Héraðsflóa. Skýrsla um grunnrannsóknir kom út í ágúst 2007 og er áformað að endurtaka rannsóknirnar að tíu árum liðnum þar sem áhrif á botndýralíf geta verið lengi að koma fram. Rannsóknir munu verða endurteknar enn síðar reynist þess þörf.
    Hvað varðar vöktun hreindýra hefur til viðbótar við hefðbundna vöktun Náttúrustofu Austurlands verið unnið að viðbótarvöktun. Í því felst kortlagning á burðarsvæði hreindýra, rannsóknir á gróðri á sumarbeitarsvæðum og vöktun hugsanlegra breytinga vegna beitar og rannsóknir á fari hreindýra með GPS-tækjum.
    Landsvirkjun hefur einnig gert samstarfssamning við Landgræðsluna að framkvæmdum loknum varðandi leiðir til að draga úr og verjast áfoki úr Hálslóni og eins varðandi gróðurstyrkingu við Hálslón og tilraunasáningu melgresis. Þá gerðu sömu aðilar með sér samning vegna uppgræðsluaðgerða þar sem Landgræðslan tók að sér að afla upplýsinga, grunnkortlagningu og að halda gagnagrunn um framkvæmd verkefna.
    Á árunum 2008–2009 vöktuðu starfsmenn Landsvirkjunar uppfok af ströndum Hálslóns. Einnig hafa farið fram rannsóknir á áhrifum uppfoks frá Hálslóni. Áform eru um frekari vöktun og stofnaður hefur verið verkefnahópur sem fylgist með þróun strandar lónsins og ákveður hvernig skuli bregðast við þróuninni með mótvægisaðgerðum sem vernda gróðurinn. Landsvirkjun hyggst vakta strönd Hálslóns áfram í samræmi við skilyrði nr. 4 í úrskurði ráðuneytisins.
    Stofnaður hefur verið Landbótasjóður Norður-Héraðs (nú Fljótsdalshéraðs) sem hefur það hlutverk að annast uppgræðslu og landbótaverkefni. Niðurstöður af framkvæmdum á vegum sjóðsins má sjá í ársskýrslum. Ráðgjafanefnd sjóðsins gerir landgræðsluáætlun og verkáætlun komandi árs og gerir sjóðsstjórn grein fyrir framgangi verkefna og hvort markmiðum hafi verið náð. Aðgerðir á vegum sjóðsins hafa staðið frá árinu 2003. Í Fljótsdalshreppi hefur verið stofnaður sambærilegur sjóður sem er þó nokkru minni. Markmið sjóðanna er að græða upp land a.m.k. til jafns við það sem tapast undir Hálslón, en uppgræðsluaðgerðir eru í höndum heimamanna með fjármagni frá Landsvirkjun.

     6.      Hafa leyfisskyld efni, eða efnasambönd sem geta haft skaðleg áhrif á lífríkið, verið notuð til þess að hefta fok af bökkum Hálslóns og/eða til þess að þétta aðrennslisgöng virkjunarinnar? Ef svo er, hvaða efni hafa verið notuð og hvernig var staðið að leyfisveitingum og vöktun vegna þeirra?
    Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands (HAUST) hafa Landsvirkjun og Landgræðslan leitað eftir samþykki Heilbrigðisnefndar Austurlands vegna nota á efnum á bökkum Hálslóns. Tekið er sérstaklega fram að efnunum sé ekki ætlað að hefta allt fok, heldur að koma í veg fyrir áfok, þ.e. að sandur eyði gróðri með áfoki. HAUST hefur veitt samþykki fyrir því að Landgræðslan og Landsvirkjun noti eftirfarandi efni: trjákvoðu, Flobond, þaramjöl, Soiltac og Emulsion (bikþeytu). HAUST tekur sérstaklega fram að heilbrigðisfulltrúi hafi farið u.þ.b. tvisvar sinnum árlega á vettvang og skoðað efnanotkunina og einnig hefur Landsvirkjun sent HAUST greinargerðir um efnanotkun á bökkum Hálslóns. Svo virðist sem nú hafi verið horfið frá notkun annarra efna en bikþeytunnar.
    Varðandi notkun bergþéttiefna við gangagerð var ekki sótt um eða gefin út leyfi fyrir notkun bergþéttiefna samkvæmt upplýsingum frá HAUST. Gangagerðin sjálf er ekki leyfisskyld starfsemi samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Heilbrigðisfulltrúi HAUST skoðaði birgðir af efnum í geymslu í reglubundnu eftirliti með starfsstöðvum á virkjanasvæði og gekk eftir að öryggisblöð væru við geymslur til að starfsmenn gætu brugðist rétt við ef kæmi til mengunarslysa. Í nokkrum tilfellum voru gerðar athugasemdir við geymslur.
    Mest var um að ræða efnavöru frá fyrirtækinu SIKA. Tæmandi listi yfir efni notuð við bergþéttingu á Kárahnjúkasvæðinu er ekki fyrirliggjandi hjá HAUST en HAUST fylgdist reglulega með fráveitu frá göngunum. Leki frá gangagerðinni varð mun meiri en við var búist og olíumengun í fráveituvatni allnokkur. HAUST mælti með því að sérstaklega yrði fylgst með Glúmsstaðadalsá vegna álags af seti og olíumengun. Landsvirkjun hefur falið Náttúrustofu Austurlands það verk og er lokaskýrsla væntanleg í kjölfar skoðunar sumarið 2011.

     7.      Telur ráðherra, að fenginni reynslu af þeim vatnsárum sem virkjunin hefur verið í rekstri, vera þörf á viðvarandi mótvægisaðgerðum og ef svo er, hverjar eru þær þá helstar?
    Þær mótvægisaðgerðir sem eru nauðsynlegastar eru aðgerðir til að draga úr jarðvegsrofi og áfoki úr Hálslóni, þ.e. uppsetning verkfræðilegra áfoksvarna og aðrar aðgerðir til að draga úr jarðvegsrofi og áfoki og reglulegt viðhald og mat á virkni þeirra.



Fylgiskjal.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.