Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 82. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 973  —  82. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Glóeyju Finnsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Utanríkismálanefnd óskaði álits umhverfisnefndar á tillögunni og er álit nefndarinnar birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 5. ágúst 2009. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Tillaga að tilskipuninni var fyrst lögð fram á vettvangi ESB í lok júní 2002. Markmiðið er að færa ábyrgð á umhverfistjóni til þess sem tjóninu veldur, þ.e. til rekstraraðila þeirrar atvinnustarfsemi sem fellur undir hana. Þar með á að tryggja að mengunarvaldurinn eða sá sem ber ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni rannsaki, komi í veg fyrir eða bæti úr tjóni og beri allan kostnað þar af.
    Ásamt framangreindu markmiði er tilgangur tilskipunarinnar að tryggja að öll atvinnustarfsemi á svæðinu beri sambærilega fjárhagsábyrgð á þeim skaða sem hún kann að valda. Ábyrgðin nær þó einungis til tjóns á umhverfinu. Tjón á eignum eða lífi og limum fellur ekki undir ákvæði tilskipunarinnar. Ábyrgðin tekur til tjóns á vernduðum tegundum, náttúruverndarsvæðum, landi og vatni.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur umhverfisráðherra þegar hlutast til um það með framlagningu lagafrumvarps til heildarlaga um umhverfisábyrgð (þskj. 345, 299. mál) sem nú er til meðferðar í umhverfisnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Bjarni Benediktsson.



Helgi Hjörvar.


Ólöf Nordal.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Fylgiskjal.



Álit


um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur að beiðni utanríkismálanefndar, dags. 17. nóvember 2010, tekið til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn (82. mál).
    Samkvæmt 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings eða breyting á honum kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess.
    Markmið með umræddri tilskipun er að setja ramma um umhverfisábyrgð, sem byggist á mengunarbótareglunni, til að koma í veg fyrir umhverfistjón og ráða bót á því. Tilskipuninni er ætlað að færa ábyrgð á umhverfistjóni til þess sem tjóninu veldur, þ.e. til rekstraraðila þeirrar atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipunina. Henni er þannig ætlað að tryggja að öll atvinnustarfsemi á svæðinu beri sambærilega fjárhagsábyrgð á þeim skaða sem hún kann að valda. Ábyrgðin nær þó einungis til tjóns á umhverfinu en tjón á eignum eða lífi og limum fellur ekki undir ákvæði tilskipunarinnar. Ábyrgðin tekur til tjóns á vernduðum tegundum og vistgerðum, landi og vatni.
    Umhverfisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um umhverfisábyrgð. Er efni þess í samræmi við tilskipun 2004/35/EB og reglur opinbers réttar um athafnaskyldur rekstraraðila sem ábyrgð ber á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku.
    Nefndin hefur fjallað um málið og tekið afstöðu til þingsályktunartillögunnar. Er niðurstaða nefndarinnar að leggja til að utanríkismálanefnd samþykki tillöguna án breytinga.

Alþingi, 10. desember 2010.

Mörður Árnason, form.,
Ólína Þorvarðardóttir,
Birgir Ármannsson,
Álfheiður Ingadóttir,
Vigdís Hauksdóttir,
Skúli Helgason.