Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
2. uppprentun.

Þskj. 1097  —  237. mál.
Framsaga.




Nefndarálit



um frv. til l. um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Ásgeirsson fyrir hönd áhugahóps um úrbætur á fjármálakerfinu, Elínu Jónsdóttur frá Bankasýslu ríkisins, Guðmund Kára Kárason, Helgu Jónsdóttur og Kjartan Gunnarsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Gísla Örn Kjartansson, Halldóru Elínu Ólafsdóttur, Lindu Rut Kristófersdóttur, Ólaf E. Friðriksson og Tómas Sigurðsson frá Fjármálaeftirlitinu, Björgúlf Jóhannsson frá Icelandair Group, Áslaugu Guðjónsdóttur, Hreiðar Bjarnason, Jón Guðna Ómarsson, Jónu Björk Guðnadóttur, Ólaf Frímann Gunnarsson og Ólaf Haraldsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ragnar Sigurðarson og Tryggva Pálsson frá Seðlabanka Íslands, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta og Eirík Elís Þorláksson, Guðrúnu Þorleifsdóttur og Sigrúnu Helgadóttur frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.
    Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá Alþýðusambandi Íslands, Áhugahópi um úrbætur á fjármálakerfinu, Bankasýslu ríkisins, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Icelandair Group hf., Landssamtökum lífeyrissjóða, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sparisjóða, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarp sama efnis var lagt fyrir 138. löggjafarþing en varð ekki útrætt (255. mál). Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Innstæðutryggingakerfi hefur m.a. það hlutverk að tryggja innstæður almennra innstæðueigenda fyrir skakkaföllum sem þeir geta orðið fyrir vegna greiðsluþrots innlánsstofnana. Aðgangur að innstæðum er í raun grundvöllur þess að greiðslumiðlunarkerfið virki, þannig að ekki komi til vanskila vegna skorts á lausafé.
    Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 komu fram margvíslegir gallar á gildandi lögum, nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Lögin byggjast á eftirfarandi tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins: 94/19/EB um innlánatryggingakerfi og 97/ 9/EB um bótakerfi fyrir fjárfesta. Markmið þeirrar fyrrnefndu er að tryggja innstæður innstæðueigenda upp að vissu marki gegn greiðsluerfiðleikum viðskiptabanka og sparisjóða. Þar er kveðið á um að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20 þús. evrum verði innlánin ekki tiltæk. Í hinni síðarnefndu er mælt fyrir um samræmdar reglur um lágmarksvernd fyrir fjárfesta sem eiga kröfu á hendur fyrirtæki í verðbréfaþjónustu eða lánastofnanir í tengslum við viðskipti með verðbréf gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Verði frumvarp þetta að lögum verður einnig tekin upp í íslenskan rétt tilskipun 2009/ 14/EB um breytingar á tilskipun um innlánatryggingakerfi. Sú tilskipun hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í síðastnefndu tilskipuninni eru lagðar til nokkrar breytingar á tilskipuninni um innlánatryggingakerfi, m.a. sú að hækka tryggingarfjárhæðina í 100 þús. evrur sem og stytta frest sjóðanna til að greiða út tryggingarféð í 20 daga.
    Markmið frumvarpsins, sbr. 1. gr. þess, er að veita innstæðueigendum innlánsstofnana og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fjármálastofnunar. Í þessu skyni er innlánsstofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu skylt að greiða iðgjald til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Til að einfalda framsetninguna eru ákvæði frumvarpsins um vernd innstæðueigenda annars vegar og hins vegar fjárfesta í sér köflum enda byggist efni þeirra hvor á sinni tilskipun, sbr. framangreint. Í 3. gr. frumvarpsins er sérstaklega kveðið á um að sjóðurinn njóti ekki ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum í skilningi laga um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.
    Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins starfar sjóðurinn í þremur deildum, tveimur innstæðudeildum og verðbréfadeild. Deildirnar hafa samkvæmt frumvarpinu aðskilinn fjárhag og reikningshald og bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hvor annarrar. Þá greiðist rekstrarkostnaður af eignum sjóðsins í samræmi við hlutfall hverrar deildar í heildarkostnaði. Innstæðudeildirnar eru tvær A-deild og B-deild en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeirri síðarnefndu verði að meginstefnu ætlað að starfa eftir gildandi lögum nr. 98/1999. Þegar greiðslu skuldbindinga B-deildar er lokið skal hún lögð niður. A-deild er ætlað að vera hin nýja innstæðudeild. Verði frumvarpið að lögum skulu innlánsstofnanir greiða iðgjald til sjóðsins frá gildistöku laganna.
    Ákvæði 10. gr. frumvarpsins um iðgjöld til sjóðsins eru talsvert breytt frá gildandi lögum. Lagt er til að iðgjald innlánsstofnana hækki verulega, sbr. 2. mgr., þar sem mælt er fyrir um að iðgjald nemi á ársgrundvelli fjárhæð sem svari 1% allra innstæðna sem njóta tryggingaverndar hjá viðkomandi innlánsstofnun. Í gildandi lögum er hlutfallið 0,15%. Meiri hlutinn leggur til breytingu á hlutfallstölu iðgjaldsins sem verður gerð grein fyrir síðar í áliti þessu. Í 3. og 4. mgr. greinarinnar er lagt til að innlánsstofnanir greiði breytilegt iðgjald af tvennum toga. Annars vegar iðgjald sem er tengt markaðshlutdeild viðkomandi innlánsstofnunar og hins vegar iðgjald sem tekur mið af áhættustuðli sem Fjármálaeftirlitið reiknar út. Meiri hlutinn leggur til fleiri breytingar á greininni sem verður nánar gerð grein fyrir síðar. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn teljist fullfjármagnaður þegar eignir A-deildar nema að lágmarki 4% tryggðra innstæðna og er stjórn sjóðsins þá heimilt að lækka hið almenna iðgjald eftir að hafa leitað álits Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Tilhögun greiðslna er einnig breytt samkvæmt frumvarpinu en lagt er til að iðgjald greiðist ársfjórðungslega í stað þess að greitt sé eftir á fyrir nýliðið ár. Ekki er gert ráð fyrir greiðslum í sjóðinn fyrir árið 2010. Lögð er til talsverð hækkun tryggingaverndar innstæðueigenda. Samkvæmt gildandi lögum nemur lágmarkstryggingavernd rúmum 20.000 evra en ekkert hámark er á verndinni. Skv. 12. gr. frumvarpsins er fallið frá því að kveða á um lágmarkstryggingu og í staðinn kveðið á um hámarkstryggingu sem nemur jafnvirði 100.000 evra. Heildarfjárhæð tryggðra greiðslna hvers innstæðueiganda úr A-deild nemur því heildarfjárhæð tryggðra innstæðna hans en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur jafnvirði 100.000 evra.
    Ákvæði um verðbréfadeild sjóðsins eru í IV. kafla frumvarpsins. Verðbréfadeildin tryggir fjárfestum vernd vegna glataðra verðbréfa og reiðufjár, sbr. 17. gr. frumvarpsins. Heildareign verðbréfadeildar skal skv. 18. gr. frumvarpsins nema að lágmarki 200 millj. kr. sem taki breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Hámarksgreiðsla úr verðbréfadeild nemur jafnvirði 20.000 evra.
    Ákvæði um stjórn sjóðsins eru nokkuð breytt frá gildandi lögum. Gerð er tillaga um að stjórnarmönnum verði fækkað úr sex í þrjá. Þeir skulu skipaðir af efnahags- og viðskiptaráðherra, formaður án tilnefningar og hinir tveir af Seðlabanka Íslands og samstarfsnefnd háskólastigsins. Ársfundur skal haldinn fyrir lok mars ár hvert og rétt til fundarsetu skulu eiga fulltrúar þeirra sem greiða iðgjöld í sjóðinn, fulltrúar hagsmunasamtaka þeirra, fulltrúar hagsmunasamtaka viðskiptamanna þeirra og fulltrúar opinberra aðila. Í 27. gr. er mælt fyrir um að stjórn sjóðsins ákveði fjárfestingarstefnu hans og að ávöxtun á fé sjóðsins skuli miðast við að hann geti sem best sinnt hlutverki sínu. Í þessu sambandi er vert að árétta meginmarkmið frumvarpsins um vernd hagsmuna neytenda. Fjárfestingarstefnan skal kynnt á ársfundi sem skal auglýstur opinberlega og gefst því þeim sem sækja fundinn kostur á að gera athugasemdir við fjárfestingarstefnuna. Fjárfestingarstefnan þarf að vera sveigjanleg og í sífelldri endurskoðun og því óheppilegt að lögfesta ákvæði um hana. Hún verður m.a. að taka mið af þeim innstæðum sem eru í innlánsstofnunum á hverjum tíma. Þá verður sjóðurinn að geta innleyst eignir á tiltölulega skömmum tíma án þess að það hafi of mikil markaðsáhrif og geta fjárfest erlendis þar sem markaðir eru virkari og stærri. Í gildandi reglugerð um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 120/2000, segir að ávöxtun á fé sjóðsins skuli miðuð við að sjóðurinn verði sem hæfastur til að gegna hlutverki sínu og að lágmarki fjórðungur af fé sjóðsins skuli bundinn í verðbréfum með ábyrgð ríkissjóðs. Í dönskum lögum um sama efni segir að kveðið skuli á um fjárfestingarstefnu sjóðsins í samþykktum hans. Hvorki er kveðið á um fjárfestingarstefnu tryggingarsjóðs innstæðueigenda í norskri löggjöf né í þeirri sænsku.
    Við umfjöllun um málið komu fram athugasemdir um að aðskilnaður A- og B-deildar sjóðsins væri ekki nægilega vel tryggður sem gæti leitt til þess að þeir sem ættu rétt á greiðslum úr einni deild gætu krafist greiðslu frá annarri deild einnig. Fordæmi eru fyrir því, svo sem úr eldri rétti sem og úr dönskum rétti að tryggingarsjóðir starfi í fleiri deildum en einni. Í 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að sjóðurinn starfi í þremur sjálfstæðum deildum. Innstæðudeildir eru tvær og auk þess starfar verðbréfadeild við sjóðinn. Þess er sérstaklega getið í lokamálslið greinarinnar að A- og B-deildir hafi aðskilinn fjárhag og reikningshald og beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hvor annarrar. Þá er í 8. gr. kveðið á um að sjóðurinn verði hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né sé heimilt að gera aðför í eignum hans. Í 16. gr. er sérstaklega mælt fyrir um að eignir og skuldbindingar innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt gildandi lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta muni við gildistöku frumvarpsins tilheyra sérstakri deild, þ.e. B- deild. Sömuleiðis er í ákvæði til bráðabirgða III við frumvarpið mælt er fyrir um að þrátt fyrir ákvæði 30. gr. muni lög, nr. 98/1999, gilda áfram um B-deild vegna ábyrgða sem kunni að hafa fallið á innstæðudeild sjóðsins fyrir gildistöku þessa frumvarps.
    Meiri hlutinn bendir á að ekki sé raunhæft að stefna að því að byggja upp innstæðutryggingarsjóð sem geti mætt kerfisáfalli. Mjög kostnaðarsamt yrði að miða stærð sjóðsins við það að mæta slíku áfalli. Gert er ráð fyrir að upphæð innstæðna sem tryggðar verði samkvæmt þessu frumvarpi séu um 500 milljarðar kr. og yrði þá sú upphæð að vera til reiðu í sjóði til að mæta kerfishruni. Möguleiki tryggingarsjóða innstæðueigenda til endurtryggingar vegna kerfisáhættu er enn ekki í boði á Evrópska efnahagssvæðinu en slíkt kerfi mundi auðvelda þjóðum með hlutfallslega fáa og stóra banka að mæta slíkri áhættu. Á meðan endurtryggingarmöguleikinn er ekki til staðar er afar mikilvægt að regluverkið og ekki síst eftirlitskerfið dragi úr líkum á kerfisáhættu. Það má því segja að ábyrgðarkerfið sem er fyrir hendi um innstæður feli í sér nokkrar varnarlínur. Í fyrsta lagi lög um fjármálafyrirtæki sem er ætlað að tryggja traustan rekstur fjármálafyrirtækja. Í öðru lagi ákvæði laga um hlutverk Fjármálaeftirlitsins við eftirlit með einstökum fyrirtækjum og heimildir til afskipta af rekstri þeirra. Í þriðja lagi er það eftirlit Seðlabanka Íslands með öryggi kerfisins í heild, fjármálastöðugleika sem er ætlað að koma í veg fyrir að erfiðleikar í rekstri einstakra fjármálafyrirtækja leiði til falls annarra fyrirtækja eða raski efnahagslegu öryggi ríkisins. Löggjöf sem varðar fjármálamarkaðinn hefur verið og/eða verður endurbætt í þeim tilgangi að bæta úr ágöllum sem hafa orðið ljósir.
    Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn teljist fullfjármagnaður þegar eignir A-deildar nema að lágmarki 4% tryggðra innstæðna og er stjórn sjóðsins þá heimilt að lækka hið almenna iðgjald eftir að hafa leitað álits Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Benda má á í þessu sambandi að meiri hlutinn leggur til breytingu sem gerð verður grein fyrir síðar þess efnis að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið leggi til að hið almenna iðgjald verði lækkað. Ríkisstjórnin lýsti því yfir 9. desember 2009 að yfirlýsing hennar frá 3. febrúar sama ár væri enn í fullu gildi, þ.e. að allar innstæður í innlendum bönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi væru tryggðar. Fram kom að yfirlýsingin yrði ekki dregin til baka fyrr en nýtt íslenskt fjármálakerfi, með breyttri umgjörð, hefði sannað sig og þá yrði gefinn aðlögunartími. Núverandi fyrirkomulag innstæðutryggingarinnar sem byggist á lögum frá 1999 um innstæðutryggingar og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í október 2008 tryggja nánast allar innstæður í íslenskum bönkum. Ástæða þessarar víðtæku innstæðutryggingar er að nánast engin innlán eru undanþegin tryggingavernd og ekkert þak er á þeirri fjárhæð sem nýtur verndar. Með frumvarpinu er tryggingaverndin takmörkuð með því að undanskilja svokölluð heildsöluinnlán og lágmarkstryggingarupphæðin hækkuð úr 20.889 evrum í 100.000 evrur sem jafnframt verður hámarksupphæð tryggðra innlána. Þess má geta að um 95% innstæðueigenda eiga minna en sem nemur 15 milljónum kr. í innlánsstofnunum. Enn fremur eru iðgjaldagreiðslur innlánsstofnana í sjóðinn hækkaðar verulega til að flýta sjóðsmyndun. Því má gera ráð fyrir að samþykkt þessa frumvarps muni auðvelda ríkisstjórninni að afnema í áföngum yfirlýsinguna um fulla innstæðutryggingu án þess að innlánsstofnanir verði fyrir áhlaupi.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á nokkrum ákvæðum ýmist til lagfæringar eða til að gæta samræmis í framsetningu.
    Í 2. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningar hugtaka, þ.m.t. á hugtakinu innstæða. Þar er sérstaklega tekið fram að peningamarkaðsinnlán teljist ekki til innstæðu. Nokkuð var rætt um það við umfjöllun um málið hvort peningamarkaðsinnlán ættu að teljast til innstæðu eða ekki. Peningamarkaðsinnlán hafa verið fjárfestingarkostur fyrir stærri fjárfesta en virðast hins vegar nú orðið standa nær öllum viðskiptavinum innlánsstofnana til boða. Meiri hlutinn leggur til breytingu í þá veru að fella peningamarkaðsinnlán brott úr upptalningu á því sem ekki teljist til innstæðu svo að þau falli undir vernd almenna tryggingakerfisins. Er þetta m.a. gert til að raska ekki stöðu bundinna skammtíma innlána. Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á skilgreiningu á hugtakinu heildsöluinnlán til að ljóst sé að innlán þar sem samið er sérstaklega um kjör og tímalengd teljist vera heildsöluinnlán. Lagt er til að felld verði brott tilvísun til þess að um innlán fjármálafyrirtækja, félagasamtaka og stofnana þurfi að vera að ræða til að innlán teljist vera heildsöluinnlán. Heildsöluinnlán standa almennum sparifjáreigendum að jafnaði ekki til boða og eru skilmálar þeirra ekki staðlaðir.
    Lagt er til að Samtök fjárfesta tilnefni einn stjórnarmann í stað samstarfsnefndar háskólastigsins og er því lögð til breyting á 4. gr.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á 10. gr. Lagt er til að 2. mgr. 10. gr. falli brott og því verði ekki um markaðshlutdeildartengt iðgjald að ræða. Því verði iðgjöld tvenns konar, almennt iðgjald og áhættuvegið iðgjald. Talið er að áhættuvegið iðgjald eitt og sér nái þeim markmiðum sem stefnt er að, þ.e. að innlánsstofnanir greiði þeim mun hærra iðgjald sem í starfsemi þeirra felst meiri áhætta fyrir sjóðinn. Í frumvarpinu er lagt til að iðgjald innlánsstofnunar í sjóðinn verði 1% innstæðna sem njóta tryggingaverndar. Tillaga um hlutfallið 1% á rætur að rekja til breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar við fyrra frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (þskj. 1286 á 138. löggjafarþingi) þar sem tillaga þess frumvarps um 0,3% iðgjald þótti ekki til þess fallið að tryggja hraða sjóðsmyndun og að það mundi því taka of langan tíma fyrir sjóðinn að ná traustvekjandi stærð. Við umfjöllun um málið í nefndinni hefur því þó verið hreyft að 1% iðgjald gæti leitt til aukins vaxtamunar þar sem skattbyrði innlánsstofnana hefur verð þyngd á sama tíma og skyldur þeirra hafa aukist. Með lögum, nr. 75/2010, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, sem voru samþykkt síðastliðið vor, voru Fjármálaeftirlitinu fengnar auknar eftirlitsheimildir með eftirlitsskyldum aðilum auk þess sem hert var á ýmsum ákvæðum, svo sem áhættustýringu, ábyrgð innri endurskoðunar aukin, hert eftirlit með útlánum o.s.frv. Lögunum er ætlað að draga úr líkum á falli eða greiðsluþroti fjármálafyrirtækja. Þá hafa verið sett lög um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, sem nemur 0,041% af heildarskuldum fjármálafyrirtækis. Meiri hlutinn leggur því til að í 2. mgr. 10. gr. verði kveðið á um að hið almenna iðgjald nemi sem svari 0,3% á ári af öllum innstæðum viðkomandi lánastofnunar öðrum en þeim sem eru undanþegnar tryggingavernd á grundvelli 14. gr. frumvarpsins. Lagt er til breytt orðalag á ákvæði 4. mgr. 10. gr. Ekki er talið tímabært að lögfesta nákvæman útreikning á áhættustuðli enda hafa slíkar tillögur um útreikning á áhættustuðli ekki komið til framkvæmda í Evrópusambandinu. Ákvörðun um áhættustuðul telst til meiri háttar ákvarðana sem stjórn Fjármálaeftirlitsins á að taka. Eðlilegt er að Fjármálaeftirlitið birti opinberlega þau viðmið sem liggja til grundvallar ákvörðun um áhættustuðul svo að innlánsstofnanir geti hagað rekstri sínum í samræmi við það. Þá er lögð til breyting á 6. mgr. og 10. mgr. 10. gr. í þá veru að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands leggi til við sjóðinn að viðbótariðgjald skuli innheimt (6. mgr.) eða að iðgjald verði lækkað hafi sjóðurinn náð lágmarksstærð (10. mgr.). Mikilvægt er að tryggja víðtækt samráð um þessi atriði. Sams konar breyting er lögð til á 18. gr.
    Í 5. mgr. 12. gr. er kveðið á um að ef til greiðslu úr sjóðnum komi yfirtaki hann án sérstakrar framsalsyfirlýsingar kröfu innstæðueiganda á hendur hlutaðeigandi innlánsstofnun/ þrotabúi. Meiri hlutinn telur skynsamlegt að afmarka ákvæðið betur svo að skýrt sé að krafa sjóðsins afmarkist við greiðslur úr sjóðnum og að hámarki við 100 þús. evrur. Sams konar breyting er lögð til á 19. gr.
    Í 14. gr. er kveðið á um hvaða innstæður séu undanþegnar tryggingavernd. Lögð er til breyting á 3. tölul. þar mælt er fyrir um að innstæður fyrirtækja, þar sem innlánsstofnun fer með virkan eignarhlut samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, eru undanþegnar tryggingavernd. Meiri hlutinn leggur til að mörkin verði þrengd þannig að innlánsstofnunin verði að fara með meiri hluta í fyrirtæki til að undanþága frá tryggingavernd eigi við. Í ljósi þess að í tillögum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er gert ráð fyrir samræmdum reglum á Evrópska efnahagssvæðinu um það hvaða innstæður skuli njóta verndar og að þar er ekki gert ráð fyrir innstæðum lífeyrissjóða er lagt til að lífeyrissjóðum verði bætt við upptalningu 1. mgr. 14. gr. Breytingin hefur ekki áhrif á réttindi þeirra sem eiga hlutdeild í hreinum innlánsleiðum vörsluaðila lífeyrissparnaðar, sbr. skilgreiningu á hugtakinu innstæða. Jafnframt er lögð til lagfæring á orðalagi 6. tölul. 1. mgr. 14. gr. og 6. tölul. 22. gr.
    Í 30. gr. frumvarpsins er kveðið á um gildistöku og leggur meiri hlutinn til breytingu á henni í þá veru að lögin öðlist gildi 1. júní 2011. Vegna þessa eru jafnframt lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða við frumvarpið og er gert ráð fyrir því að fyrsti gjalddagi almenns iðgjalds, áhættuvegins iðgjalds og iðgjalds í verðbréfadeild verði síðasti virki dagur ágústmánaðar 2011. Ekki er gert ráð fyrir að innheimt verði áhættuvegið iðgjald fyrir fyrsta ársfjórðung 2011. Lagðar eru til breytingar á ákvæði til bráðabirgða II þar sem lagt er til að Tryggingarsjóður sparisjóðanna skuli lagður niður eigi síðar en 31. desember 2010. Lagt er til að hann skuli lagður niður við gildistöku laganna og að eignir hans renni til öryggissjóðs sparisjóðanna og myndi stofnfé þess sjóðs. Með breytingartillögu við 31. gr. leggur meiri hlutinn til að nýtt ákvæði bætist við lög um fjármálafyrirtæki, 70. gr., þess efnis að heimilt verði að starfrækja öryggissjóð sparisjóðanna í því skyni að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og fjárhagslegt öryggi sparisjóða. Meiri hlutinn leggur jafnframt til ný ákvæði til bráðabirgða. Lagt er til að ákvæði gildandi laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta um tímafresti til útborgunar gildi til 1. september 2011. Þá er lagt til að gildandi lög taki til greiðsluskyldu sjóðsins á skuldbindingum sem hafa stofnast fyrir gildistöku þessa frumvarps.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 17. mars 2011.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Lilja Mósesdóttir,


form.


Ólína Þorvarðardóttir.


Skúli Helgason,


frsm.



Atli Gíslason.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.







Fylgiskjal.


10. gr. frumvarpsins með áorðnum breytingum samkvæmt
tillögum meiri hluta viðskiptanefndar.


10. gr.
Iðgjald.

    Innlánsstofnanir skulu greiða iðgjöld til A-deildar frá því að þær hefja starfsemi skv. a-lið 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Iðgjöld skulu vera samtala almenns iðgjalds skv. 2. mgr. og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls skv. 3. mgr.
    Almennt iðgjald skal nema sem svarar 0,3% á ári af öllum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun öðrum en þeim sem eru undanþegnar tryggingavernd skv. 14. gr. eða 0,075% á ársfjórðungslegum gjalddaga.
    Auk iðgjalds skv. 2. mgr. greiðir innlánsstofnun breytilegt iðgjald í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri innlánsstofnun. Áhættustuðull skal lægst hafa gildið 0 og hæst gildið 1 og skal iðgjald skv. 2. mgr. margfaldað með áhættustuðlinum eins og hann er í lok þess ársfjórðungs sem iðgjald er greitt fyrir.
    Gjalddagar eru fjórir á ári, einn fyrir hvern ársfjórðung, síðasta virkan dag í febrúar, maí, ágúst og nóvember.
    Að fenginni sameiginlegri tillögu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands ber sjóðnum að innheimta viðbótariðgjald ef eign A-deildar dugir ekki til að standa undir greiðslu þegar greiðsluskylda sjóðsins verður virk vegna atvika sem getur í 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. Einnig er sjóðnum heimilt að innheimta viðbótariðgjöld til að standa straum af kostnaði, afborgunum og greiðslum vaxta af lánum skv. 8. gr. Iðgjald samkvæmt þessari málsgrein skal þó aldrei vera hærra en nemur 0,6% af tryggðum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun.
    Iðgjöld eru óendurkræf.
    Eigi síðar en 30 dögum eftir lok hvers ársfjórðungs skulu innlánsstofnanir hafa veitt sjóðnum upplýsingar um samtölu þeirra eigna og atriða sem álagning skv. 2.–3. mgr. byggist á. Skulu upplýsingarnar veittar í því formi sem sjóðurinn ákveður. Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands er skylt að afhenda sjóðnum upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að sannreyna upplýsingar sem fjármálafyrirtæki hafa afhent samkvæmt grein þessari. Sjóðurinn tilkynnir innlánsstofnunum upphæð iðgjalds a.m.k. sjö dögum fyrir gjalddaga.
    Standi innlánsstofnun ekki skil á upplýsingum sem henni ber að veita skv. 7. mgr. er sjóðnum heimilt að áætla iðgjald innlánsstofnunar skv. 2.–3. mgr. Slíkt iðgjald skal að lágmarki nema tvöfaldri síðustu álagningu ársfjórðungslegs iðgjalds viðkomandi innlánsstofnunar og er óheimilt að endurgreiða það þótt full skil verði gerð á öllum nauðsynlegum upplýsingum síðar.
    Að fenginni sameiginlegri tillögu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands ber stjórn sjóðsins að lækka iðgjöld skv. 2. mgr. þegar eignir A-deildar nema að lágmarki 4% af heildarinnstæðum sem tryggðar eru.
    Sjóðnum er heimilt að innheimta iðgjöld í þeirri mynt sem innstæða er í.