Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 637. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1122  —  637. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Jón Gunnarsson.



1. gr.

    Við 5. mgr. 71. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Félög, sjóðir og stofnanir sem hér eiga heimili ef þessir aðilar verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu 2011.

Greinargerð.


    Samkvæmt 4. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt er tilgreindum aðilum sem undanþegnir eru tekjuskatti á atvinnurekstrartekjur skylt að greiða fjármagnstekjuskatt af tilteknum tekjum sem skilgreindar eru í 3., 4. og 5. tölul. C-liðar 7. gr. laganna og 8. tölul. sama stafliðar 7. gr. er varðar söluhagnað. Skattskyldan tekur meðal annarra til lögaðila sem eru heimilisfastir hér á landi og „verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum“.
    Frumvarp þetta mælir fyrir um að félög, sjóðir og stofnanir sem uppfylla tilvitnað skilyrði verði undanþegnir þessari skattskyldu í því skyni að efla starfsemi þeirra. Er frumvarpið í anda tillagna sem fram koma í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi þingi (sbr. þskj. 956, 567. mál).