Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 640. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1126  —  640. mál.




Fyrirspurn



til utanríkisráðherra um styrki vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

Frá Birgi Ármannssyni.



     1.      Hver er staða styrkja og umsókna, bæði vegna beinna styrkja og óska um sérfræðilega aðstoð (IPA, TAIEX o.fl.), af hálfu íslenskra stjórnvalda í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu?
                  a.      Hversu margar umsóknir um styrki eða sérfræðilega aðstoð hafa þegar verið sendar stofnunum Evrópusambandsins frá því að Alþingi samþykkti aðildarumsóknina sumarið 2009? Til hvaða verkefna hefur verið sótt um styrki eða aðstoð? Hversu margar umsóknir af því tagi hafa þegar verið samþykktar af ESB og til hvaða verkefna?
                  b.      Hvaða umsóknir eru nú í undirbúningi af hálfu einstakra ráðuneyta, ráðherranefndar um Evrópumál, einstakra stofnana, samninganefndar Íslands eða annarra aðila á vegum stjórnvalda?
                  c.      Liggja fyrir upplýsingar um áætlaðan fjölda umsókna meðan á aðildarferlinu stendur og líklegar fjárhæðir í því sambandi, bæði varðandi beina styrki og greiðslur fyrir sérfræðilega aðstoð?
     2.      Hvernig er málsmeðferð varðandi undirbúning umsókna um styrki og aðstoð háttað af hálfu íslenskra stjórnvalda? Hver er þáttur einstakra ráðuneyta, ráðherranefndar, stofnana og samninganefndar í því ferli?
     3.      Hver tekur endanlegar ákvarðanir um það hvaða umsóknir eru sendar stofnunum ESB?
     4.      Hefur ríkisstjórnin tekið ákvarðanir um einhverjar breytingar á vinnu við undirbúning og ákvarðanir vegna styrkumsókna á þeim tíma sem aðildarferlið hefur staðið yfir?


Skriflegt svar óskast.