Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 661. máls.

Þskj. 1177  —  661. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Getur starfsmaður þá krafist orlofs á öðrum tíma og skal orlofið ákveðið í samráði atvinnurekanda við starfsmanninn skv. 5. gr. en þó eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur.
     b.      2. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á lögum nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum. Við gerð þess hafði velferðarráðuneytið samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis og Vinnumálastofnun.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við að samkvæmt lögum um orlof verði orlofi starfsmanna, sem vegna veikinda geta ekki farið í orlof á þeim tíma sem ákveðið hafi verið, að vera lokið fyrir 31. maí næstan á eftir en að öðrum kosti fái þeir orlofslaun sín greidd. Hefur stofnunin talið að framangreint brjóti í bága við ákvæði 7. gr. tilskipunar 2003/ 88/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Byggist niðurstaða stofnunarinnar meðal annars á dómum Evrópudómstólsins í sameinuðu máli C-360/06 og C-520/06 Schultz- Hoff and Others og máli C-124/05 Vakbewegning.
    Í því skyni að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á 6. gr. laga um orlof en breytingarnar gera ráð fyrir að starfsmanni, sem vegna veikinda getur ekki farið í orlof á þeim tíma sem ákveðið hefur verið, verði kleift að fara í orlof eftir að veikindunum lýkur án þess að það sé skilyrði að orlofinu verði lokið fyrir 31. maí næstan á eftir. Þó er gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmaður fari í orlof eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur. Er gert ráð fyrir að 5. gr. laganna gildi um samráð atvinnurekanda við starfsmanninn um ákvörðunina hvenær orlofið skuli tekið eins og verið hefur. Í því sambandi er jafnframt gert ráð fyrir að 2. mgr. 6. gr. laganna falli brott.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum laga um orlof í því skyni að rýmka rétt starfsmanna til töku orlofs í kjölfar veikinda. Í gildandi orlofslögum er það áskilið að starfsmaður sem hefur þurft að breyta tilhögun orlofs vegna veikinda skuli hafa lokið orlofstöku 31. maí næsta ár á eftir, ellegar fá orlof sitt greitt út. Lagt er til að þessu ákvæði verði breytt þannig að starfsmaður geti í samráði við atvinnurekanda ákveðið orlofstökuna svo fljótt sem auðið er eftir að veikindum lýkur.
    Verði frumvarpið lögfest verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.