Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 668. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1185  —  668. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, ásamt síðari breytingum.

Flm.: Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Magnús Orri Schram.



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný skilgreining, í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
    Gæludýravegabréf: Skilríki sem staðfestir að gæludýr hafi fengið allar nauðsynlegar bólusetningar til að hægt sé að ferðast með það innan landa Evrópusambandsins og aftur til Íslands.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     1.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þarf ekki að einangra gæludýr sem er flutt inn til landsins á grundvelli 4. gr. a svo framarlega sem það uppfyllir skilyrði um heilbrigðis- og upprunavottorð sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu og því fylgi gæludýravegabréf komi það frá landi innan Evrópusambandsins. Komi dýrið frá landi þar sem hundaæði fyrirfinnst er bólusetning gegn sjúkdómnum nauðsynleg auk blóðsýnatöku sem sýnir fram á að dýrið hafi myndað mótefni gegn honum.
                  Matvælastofnun gefur út gæludýravegabréf fyrir þau gæludýr sem uppfylla skilyrði 3. mgr.
     2.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd reglna um gæludýravegabréf.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga er varða innflutning gæludýra. Er í frumvarpinu lagt til að ekki þurfi að einangra gæludýr sem flutt eru inn til landsins, svo framarlega sem með þeim fylgi nauðsynleg heilbrigðis- og upprunavottorð sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu og að blóðsýnataka hafi leitt í ljóst að dýrið hafi myndað mótefni gegn sjúkdómnum sem bólusett var gegn. Með frumvarpinu er einstaklingum því gert kleift að ferðast með dýr sín til útlanda og aftur heim án þess að nauðsynlegt sé að þau séu einangruð í sóttvarnastöð við heimkomu.
    Hingað til hafa reglur hér á landi komið í veg fyrir að fólk geti ferðast með gæludýr með sér án þess að nauðsynlegt hafi verið að þau verji fjórum vikum í einangrun þegar komið er aftur til landsins. Regluverkið gerir það einnig að verkum að aðilar sem njóta aðstoðar hjálparhunda, t.d. blindir, sjónskertir og flogaveikir, hafa ekki getað komið til landsins án þess að þurfa að skilja dýrið eftir heima og þurft að reiða sig á aðra hjálp sem í flestum tilvikum er ekki fyrir hendi. Að sama skapi geta íslenskir einstaklingar ekki ferðast til útlanda með hjálparhunda sína þar sem hundarnir þurfa að fara í einangrun þegar heim er komið. Slík einangrun hefur gífurlega slæm áhrif á dýrið þar sem mikilvægt er að þjálfunin sé stöðug og ekki sé gert hlé á henni.
    Íslendingar hafa á síðustu árum sent rústabjörgunarsveit sína til hjálparstarfa erlendis, svo sem á Haítí. Í rústabjörgun spila leitarhundar stórt hlutverk við að finna einstaklinga sem eru klemmdir fastir og þurfa á hjálp að halda. Það sama gildir hins vegar um leitarhundana, þeir þurfa að dvelja í einangrun þegar komið er aftur heim sem hefur mikil áhrif á þjálfun þeirra. Af þeim sökum hefur ekki verið hægt að ferðast til útlanda með þá þrautþjálfuðu hunda sem margoft hafa sýnt og sannað að þeir eru mikilvægt hjálpar- og vinnutæki við slíka björgun.
Sérstakar aðstæður hér á landi hafa hingað til komið í veg fyrir að hægt sé að flytja inn gæludýr án þess að þau þurfi að einangra á sóttvarnastöð. Til að mynda er Ísland eitt af eingöngu tíu löndum í heimi þar sem hundaæði er ekki að finna. Þar að auki eru aðrir dýrasjúkdómar sem þekktir eru erlendis algjörlega óþekktir hér á landi. Reglur um bólusetningu gegn smitsjúkdómum hafa verið þær að eingöngu má bólusetja dýr gegn þeim sjúkdómum sem eru landlægir hér. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa í för með sér að nauðsynlegt verður að breyta þeim reglum, þ.e. að gæludýr sem eiga uppruna sinn hér á landi verði einnig bólusett gegn algengum sjúkdómum sem finnast erlendis, svo sem hundaæði. Það er því ljóst að ef frumvarpið verður samþykkt verður óhjákvæmilegt að fella úr gildi bann við bólusetningum við smitsjúkdómum í viðauka 1 A við lög nr. 25/1993 sem fram kemur í 4. gr. reglugerðar nr. 665/2001 um viðbrögð við smitsjúkdómum.
    Í Evrópusambandslöndum hafa reglur um ferðalög gæludýra verið samræmdar frá 3. júlí 2004, eða frá gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 998/2003. Í aðfaraorðum reglugerðarinnar kemur skýrt fram að á síðastliðnum tíu árum hafi hættan á hundaæði minnkað gríðarlega. Sú framför sem hefur átt sér stað hefur m.a. leitt til þess að Svíþjóð og Bretland hafa fallið frá reglum um sex mánaða einangrun og innleitt þess í stað aðrar aðgerðir sem eru ekki jafnheftandi en á sama tíma jafnáhrifaríkar. Ákvæði reglugerðarinnar koma í veg fyrir ósveigjanlegar hindranir fyrir einstaklinga sem vilja ferðast með gæludýr sín, á sama tíma og þau tryggja heilbrigðisöryggi allra þeirra er koma að málinu.
    Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru sambærilegar reglum sem gilda í Evrópusambandslöndum um frjálsa för gæludýra innan sambandsins. Gæludýrum fylgi svokallað gæludýravegabréf sem gerir einstaklingum kleift að ferðast óáreittir með gæludýr sín, þ.m.t. hjálparhunda, allt frá Íslandi til Miðjarðarhafs. Breytingarnar auka því á ferðafrelsi einstaklinga sem treysta á hjálparhunda í daglegu lífi og annarra aðila sem hafa hug á að ferðast með gæludýr sín, hvort sem er vegna ferðalaga eða búferlaflutninga, með því að fella niður kröfu um einangrun þegar heim er komið.