Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 738. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1267  —  738. mál.




Álit félags- og tryggingamálanefndar



á skýrslu um eftirfylgni: Vinnueftirlit ríkisins (2007).



    Með bréfi, dags. 19. janúar 2011, vísaði forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar, Skýrsla um eftirfylgni: Vinnueftirlit ríkisins (2007), til félags- og tryggingamálanefndar. Nefndin hefur fjallað um skýrsluna og fengið á sinn fund Kristínu Kalmansdóttur og Þóri Óskarsson frá Ríkisendurskoðun, Önnu Lilju Gunnarsdóttir, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Sturlaug Tómasson frá velferðarráðuneyti og Eyjólf Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins.
    Skýrsla Ríkisendurskoðunar er til að fylgja eftir skýrslu sem stofnunin gaf út árið 2007 og hafði að geyma ábendingar til bæði félagsmálaráðuneytis og Vinnueftirlits ríkisins. Í skýrslu sinni nú kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að Vinnueftirlitið hafi brugðist með fullnægjandi hætti við öllum þeim átta ábendingum sem til stofnunarinnar var beint. Þá fór Ríkisendurskoðun yfir það hvort félags- og tryggingamálaráðuneytið hefði brugðist við fjórum ábendingum stofnunarinnar. Ekki barst svar frá ráðuneytinu við því hvort og þá hvernig hefði verið brugðist við ábendingunum.
    Ríkisendurskoðun ítrekar í skýrslu sinni allar fjórar ábendingar sínar til ráðuneytisins. Nefndin óskaði skýringa frá ráðuneytinu hvers vegna ekki hefði verið brugðist við með viðeigandi hætti. Nefndinni var tjáð að eftir að fyrri skýrslan kom út var unnið að sameiningu Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar í nýja Vinnumarkaðsstofnun. Vinna ráðuneytisins hefði því beinst að því að gera frumvarp að lögum um sameiningu stofnananna og mæta ábendingum Ríkisendurskoðunar við þá sameiningu eins og unnt væri. Frumvarp til laga um Vinnumarkaðsstofnun náði ekki fram að ganga á síðasta þingi og hefur ekki verið lagt fram að nýju enda var ákveðið að bíða með sameiningu stofnana þar til sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í velferðarráðuneyti væri lokið. Þá var nefndinni kynnt að nú væri í ráðuneytinu horft heildstætt á stofnanir sem undir það heyra og að ráðuneytið mundi í þeirri vinnu hafa ábendingar Ríkisendurskoðunar til hliðsjónar.
    Nefndin fagnar því að forseti Alþingis vísi skýrslum Ríkisendurskoðunar til faglegrar umfjöllunar hjá fastanefndum. Nefndin telur mikilvægt að stjórnsýslan tileinki sér þá lærdóma sem finna má í skýrslum Ríkisendurskoðunar. Nefndin hefur áður bent á mikilvægi þess að horft sé heildstætt á hagræðingu í ríkisrekstri og sameiningu stofnana. Telur hún því jákvætt að velferðarráðuneytið ætli sér að endurskoða fjölda og gerð stofnana sem undir ráðuneytið heyra en bendir á að ekki megi draga of lengi að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar. Nefndin telur mjög jákvætt að Ríkisendurskoðun fylgi málum eftir líkt og gert er með fyrirliggjandi skýrslu og telur sýnt að eftirlit Ríkisendurskoðunar skili árangri. Þá er ljóst að Vinnueftirlitið hefur brugðist skilvirkt og vel við ábendingum Ríkisendurskoðunar og ber að fagna því.

Alþingi, 31. mars 2011.



Ólafur Þór Gunnarsson,


varaform.     


Pétur H. Blöndal.


Guðmundur Steingrímsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.