Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 615. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1294  —  615. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur um gagnasafn Ríkisútvarpsins ohf.

    Fyrirspurnin var send Ríkisútvarpinu ohf. og byggir ráðuneytið svar sitt á svari þess.

     1.      Hvernig er varðveislu gagnasafns RÚV háttað með tilliti til sjónvarpsefnis, útvarpsefnis og efnis á heimasíðu RÚV?
    Öll útsend dagskrá, þ.e. dagskrá rásar 1, rásar 2 og sjónvarpsins er varðveitt til frambúðar og afhent Kvikmyndasafni Íslands skv. 10. gr. laga um skylduskil til safna. Upplýsingar um dagskrána eru skráðar í gagnagrunn. Efni á heimasíðu RÚV er vistað í fjóra mánuði en unnið er að lausn til að vista efni á vefnum til frambúðar. Nánast allt efni sem þar er birt hefur áður verið frumflutt í hljóðvarpi eða sjónvarpi og er jafnframt geymt á því formi í safni Ríkisútvarpsins. Eldra efni Ríkisútvarpsins er enn sem komið er mest allt á hliðrænu formi, en afar kostnaðarsamt er að færa eldra efni RÚV á stafrænt form. Nýrra efni sem hefur verið framleitt með stafrænum hætti er jafnframt geymt með þeim hætti.

     2.      Hversu lengi er efni RÚV geymt?
    Vísað er til svars við 1. tölul.

     3.      Hver er réttur almennings til aðgangs að gagnasafninu og hvernig er þeim aðgangi háttað?
    Safn Ríkisútvarpsins er öllum opið. Hægt er að leita í gagnagrunnum og skoða og hlusta á dagskrárefni í húsi Ríkisútvarpsins í Reykjavík.

     4.      Er aðgangur almennings að gagnasafni RÚV endurgjaldslaus? Ef ekki, á grundvelli hvaða laga fer gjaldtaka fram?
    Framangreindur aðgangur almennings að safni RÚV er endurgjaldslaus.