Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 612. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1295  —  612. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um bólusetningar ungbarna gegn pneumókokkum.

     1.      Hvenær má vænta þess að hafnar verði bólusetningar ungbarna gegn pneumókokkum, sem m.a. valda eyrnabólgum?
    Útboð á bóluefnum gegn pneumókokkum til bólusetningar ungbarna fór fram árið 2010 og var áformað að hefja almenna bólusetningu hér á landi 1. apríl 2011. Vegna kæru annars bjóðanda vegna niðurstöðu útboðsins reyndist hins vegar nauðsynlegt að bjóða bóluefnin út að nýju og er talið að sú kæra geti tafið innleiðingu bólusetningarinnar um a.m.k. þrjá mánuði. Vonast er því til að almenn bólusetning geti hafist um mitt ár 2011 en nú er til skoðunar hvort unnt verði að hefja bólusetninguna nú þegar í apríl eins og áformað var með því að kaupa einstaka skammta af bóluefninu án útboðs þar til almenna bólusetningin getur hafist.

     2.      Stendur til að bólusetja öll börn þriggja ára og yngri gegn pneumókokkasýkingum til að ná fyrr fram svokölluðum jákvæðum hjarðáhrifum og til að gæta jafnræðis meðal ungbarna, en nú þegar óska margir foreldrar eftir bólusetningunni á eigin kostnað? Ef svo er ekki, hvers vegna?
    Sé miðað við heildsöluverð bóluefnanna hér á landi gæti árlegur kostnaður við bólusetningu barna á fyrsta ári numið um 130–140 millj. kr. með virðisaukaskatti. Hins vegar er vonast til að með útboði fáist hagstæðara verð sem yrði í samræmi við þá fjárveitingu sem Alþingi hefur úthlutað til verkefnisins.
    Verði öll börn þriggja ára og yngri einnig bólusett mun kostnaðurinn meira en tvöfaldast og því verður ekki unnt að bjóða öllum þessum börnum bólusetningu nema að því gefnu að fjárveiting til verkefnisins aukist. Mikilvægast er hins vegar að bólusetja börnin á fyrsta aldursári.
    Bólusetning barna á fyrsta aldursári hófst í Noregi á árinu 2006. Rúmu ári síðar kom í ljós að hjarðáhrif bólusetningarinnar hjá öllum börnum yngri en fimm ára (flest óbólusett) voru umtalsverð og má ætla að hjarðáhrif hér á landi muni einnig koma fljótt í ljós við þá bólusetningu sem hér er áformuð.

     3.      Hefur verið reiknað út hve hagkvæm slík hjarðáhrif gætu verið?
    Miðað við reynslu Norðmanna má búast við að tveimur árum eftir að bólusetningin hefst hér á landi hjá börnum á fyrsta ári muni alvarlegum árlegum pneumókokkasýkingum fækka um 42% hjá einstaklingum á öllum aldri (20–25 einstaklingar alls) og þar af um 70–90% hjá börnum yngri en fimm ára (7–10 ára börn).

     4.      Telur ráðherra að flýta þurfi bólusetningunni vegna aðstæðna hér á landi, svo sem alvarlegs sýklalyfjaónæmis sem einkum er á höfuðborgarsvæðinu?
    Meginmarkmið þessarar bólusetningar er að draga úr sjúkdómum af völdum pneumókokka. Með þeim hætti er vonast til að sýkingum af völdum ónæmra sem næmra pneumókokka fækki. Áhrif bólusetningar gegn pneumókokkum á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis eru hins vegar óljós. Ástæðan fyrir því að brýnt er að hefja bólusetninguna er því fyrst og fremst að draga úr sjúkdómum af völdum pneumókokka.

     5.      Hve mörgum börnum hefur á liðnu ári þurft að gefa stærstu skammta breiðvirkra sýklalyfja sem völ er á í inntökuformi og hve mörg börn hafa verið lögð inn á spítala til sýklalyfjameðferðar í æð eða vöðva með sterkustu lyfjum sem völ er á til meðferðar á slæmum eyrnabólgum þar sem önnur lyf hafa ekki virkað?
    Samkvæmt rannsókn Hildigunnar Úlfsdóttur og félaga á Landspítala ræktuðust penicillin-ónæmir pneumókokkar á sýklafræðideild spítalans frá miðeyrum 90 einstaklinga á árinu 2007.
    Talið er að um 18% barna sem greindust með miðeyrnabólgu á Landspítala á árinu 2007 hafi fengið háskammtasýklalyf um munn og 19% barnanna fengu sýklalyf í æð eða vöðva. Upplýsingar frá öðrum stöðum á landinu eru ekki tiltækar.

     6.      Telur ráðherra að mikil notkun sýklalyfja við eyrnabólgum ungbarna á Íslandi tengist verklagi í heilsugæslunni og miklu álagi á vaktþjónustuna og barnalæknavaktina vegna undirmönnunar lækna í heilsugæslunni?
    Það er ósannað að börn fái frekar ávísað sýklalyfjum utan dagvinnutíma heldur en á dagtíma, enda sjá sömu læknar börn á daginn og utan dagvinnutíma. Það eru engin skynsamleg rök fyrir því að læknar fylgi klínískum leiðbeiningum einungis á daginn en ekki utan dagvinnutíma. Gjöf sýklalyfja við sýkingum er alltaf háð mati læknis og þau gefin í samráði við foreldra.

     7.      Verður haft samráð við heilsugæsluna við undirbúning bólusetninganna og verður hafið kynningar- og fræðsluátak fyrir lækna og foreldra um skynsamlega og markvissa notkun sýklalyfja samfara góðu hjarðónæmi barna gegn pneumókokkum þegar bólusetningarnar hefjast?
    Allar bólusetningar hér á landi eru gerðar í góðu samráði við heilsugæsluna sem sér um framkvæmd þeirra.
    Á undanförnum árum hefur mikil fræðsla verið í gangi meðal lækna og læknanema um skynsamlega notkun sýklalyfja við meðhöndlun miðeyrnabólgu. Benda má á að landlæknisembættið hefur staðið að gerð klínískra leiðbeininga um meðhöndlun miðeyrnabólgu sem gefnar voru út á árinu 2009.
    Fræðsla fyrir almenning um skynsamlega og markvissa notkun sýklalyfja hefur einnig verið hér á landi til margra ára og verður henni haldið áfram.