Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1351, 139. löggjafarþing 121. mál: grunngerð stafrænna landupplýsinga (EES-reglur, heildarlög).
Lög nr. 44 10. maí 2011.

Lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að byggja upp og viðhalda grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á vegum stjórnvalda og tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings að landupplýsingum um Ísland.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til stafrænna landupplýsinga sem eru í eigu eða á vegum stjórnvalda og varða íslenskt land, landhelgi og efnahagslögsögu, sbr. 1. og 3. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979. Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveðið nánar á um þá þætti stafrænna landupplýsinga sem lögin taka til.
     Lög þessi taka einnig til stafrænna landupplýsinga í eigu eða á vegum lögaðila sem falla undir ákvæði b–c-liðar 3. tölul. 3. gr. að svo miklu leyti sem þær verða til eða er aflað í tilefni af hinu opinbera hlutverki þeirra eða þjónustu.
     Lög þessi hafa ekki áhrif á höfundarétt stjórnvalda að landupplýsingum sem falla undir lögin.
     Stafrænar landupplýsingar í eigu annarra en lög þessi taka til falla undir lög þessi hafi eigandi þeirra fengið leyfi til að tengja þær við landupplýsingagátt, sbr. 5. gr., á grundvelli laga þessara.
     Séu til mörg samsvarandi eintök af sömu gögnum ná lögin einungis til upprunalegrar útgáfu þeirra.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
  1. Grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar: Tækni, stefnur, staðlar og mannauður sem þarf til að afla stafrænna landupplýsinga, vinna úr þeim, varðveita, miðla og auðvelda notkun þeirra.
  2. Landupplýsingar: Gögn og upplýsingar sem tengjast stað á, í eða yfir jörðu, hvort heldur með hnitum eða auðkenni, t.d. staðfang eða póstnúmer.
  3. Stjórnvöld:
    1. Öll stjórnvöld sem falla undir gildissvið upplýsingalaga.
    2. Lögaðili sem hefur verið falið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir a-lið.
    3. Lögaðili sem gegnir opinberu hlutverki eða veitir opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lýtur stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir a-lið. Lögaðili er talinn lúta opinberri stjórn í þessum skilningi þegar stjórnvöld skv. a-lið tilnefna meira en helming stjórnarmanna í stjórn lögaðilans eða hafa á annan hátt virk yfirráð yfir honum.
  4. Lýsigögn: Upplýsingar um gögn og/eða þjónustu eða lýsing einkenna gagnasafna, svo sem innihalds, eiginleika eða ástands.
  5. Samhæfni: Hæfni tveggja eða fleiri kerfa eða gagnasafna til samtengdrar vinnslu.
  6. Landupplýsingagátt: Vefsetur sem veitir aðgang að stafrænum landupplýsingum og tengdri þjónustu.


4. gr.

Lýsigögn.
     Stjórnvöld skulu leggja fram lýsigögn fyrir þær stafrænu landupplýsingar og vefþjónustu sem þau eiga, reka eða varðveita. Uppfæra skal lýsigögnin ef breytingar verða á gögnunum eða ný gögn bætast við.

5. gr.

Landupplýsingagátt.
     Landmælingar Íslands skulu starfrækja landupplýsingagátt til að veita aðgang að stafrænum landupplýsingum og upplýsingum um þær. Eftirtalin vefþjónusta skal vera aðgengileg öllum í gegnum landupplýsingagáttina:
  1. Lýsigagnaþjónusta sem gefur kost á að leita að stafrænum landupplýsingum og tengdri þjónustu.
  2. Skoðunarþjónusta sem að lágmarki gefur kost á að skoða gögn, skýringar þeirra og lýsigögn, fara um þau, þysja inn/út, hliðra þeim eða skara.
  3. Niðurhalsþjónusta sem gefur kost á að hala niður afritum stafrænna landupplýsinga eða fá beinan aðgang að þeim, hvort sem er að öllu leyti eða að hluta.
  4. Vörpunarþjónusta sem gefur kost á að varpa stafrænum landupplýsingum til að samhæfni náist.
  5. Þjónusta sem gefur kost á að virkja ólíka vefþjónustu landupplýsinga.

     Aðgangur að þjónustu skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. skal opinn öllum með þeim takmörkunum á upplýsingarétti sem greinir í 6. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál.
     Upplýsingatexti skal vera til í íslenskri útgáfu eftir því sem unnt er. Lýsigögn öll skulu vera til í íslenskri útgáfu.

6. gr.

Skyldur stjórnvalda.
     Stjórnvöld sem hafa stafrænar landupplýsingar í umsjá sinni skulu sjá til þess að gögn og tengd vefþjónusta séu gerð aðgengileg í gegnum þá landupplýsingagátt sem kveðið er á um í 5. gr.
     Séu stafrænar landupplýsingar og tengd vefþjónusta í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra skulu stjórnvöld hafa tæknilega getu til að miðla gögnum og tengja þau landupplýsingagátt, sbr. 5. gr.
     Stjórnvöldum er ekki skylt á grundvelli laga þessara að afla nýrra gagna.

7. gr.

Tenging annarra en stjórnvalda við landupplýsingagátt.
     Nú búa aðrir en stjórnvöld yfir stafrænum landupplýsingum í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra á grundvelli þeirra, og geta þeir þá sótt um að fá að tengja landupplýsingar sínar við landupplýsingagátt. Beiðni um slíkt skal send Landmælingum Íslands sem taka ákvörðun um hvort tenging sé heimil. Jafnframt geta Landmælingar Íslands haft frumkvæði að því að aðrir en stjórnvöld tengi gögn sín við landupplýsingagátt.

8. gr.

Sameiginleg notkun gagna.
     Stjórnvöld skv. a- og b-lið 3. tölul. 3. gr. skulu veita hver öðrum aðgang að stafrænum landupplýsingum og tengdri vefþjónustu og gera hver öðrum kleift að skiptast á og nota upplýsingar sínar í opinberum verkefnum.
     Stjórnvöld skulu veita stofnunum Evrópusambandsins og EFTA aðgang að stafrænum landupplýsingum og þjónustu skv. 5. gr.

9. gr.

Hlutverk Landmælinga Íslands.
     Landmælingar Íslands fara með framkvæmd laga þessara.
     Landmælingar Íslands sjá um rekstur, viðhald og tæknilega þróun landupplýsingagáttar, sbr. 5. gr. Landmælingar Íslands skulu einnig vera stjórnvöldum til ráðgjafar til að skyldum samkvæmt lögum þessum sé fullnægt.

10. gr.

Aðgerðaáætlun.
     Landmælingar Íslands gera tillögu til ráðherra um aðgerðaáætlun við uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um Ísland. Aðgerðaáætlunin skal vera til fimm ára í senn og skal umhverfisráðherra staðfesta hana.

11. gr.

Gjaldtaka.
     Þjónusta skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. er veitt án endurgjalds. Heimilt er að hafa gögn hjá skoðunarþjónustu skv. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. á því sniði að þau verði ekki notuð í viðskiptalegum tilgangi.
     Heimilt er að innheimta gjald fyrir þjónustu skv. 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 5. gr. Þjónustugjöld þessi skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við að veita þjónustu, má ekki vera hærra en kostnaður við þjónustuna og skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldskrá skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.
     Notendum skal gert kleift að greiða þjónustugjald skv. 2. mgr. með rafrænum hætti.

12. gr.

Upplýsingagjöf.
     Stjórnvöldum er skylt að veita Landmælingum Íslands þær upplýsingar á grundvelli þessara laga sem ráðherra óskar eftir, þ.m.t. um notkun landupplýsinga, útbreiðslu þeirra og aðgang að þeim.

13. gr.

Reglugerðarheimild.
     Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um:
  1. þá þætti upplýsinga sem lögin ná til, sbr. 2. gr.,
  2. þær upplýsingar sem lýsigögn innihalda og um uppfærslu á þeim, sbr. 4. gr.,
  3. landupplýsingagátt, sbr. 5. gr., m.a. um samsetningu leitarþátta,
  4. gjaldtöku, sbr. 11. gr.,
  5. upplýsingar sem stjórnvöldum er skylt að veita ráðherra, sbr. 12. gr.


14. gr.

Innleiðing á tilskipun.
     Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB um notkun og miðlun landupplýsinga, sem vísað er til í I. kafla í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010 frá 30. apríl 2010.

15. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 1. málsl. 10. gr. öðlast gildi 1. janúar 2014.

16. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við 4. gr. laga nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð, bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Að fara með framkvæmd laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, þ.m.t. að sjá um rekstur, viðhald og tæknilega þróun landupplýsingagáttar.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Landmælingar Íslands skulu koma á fót landupplýsingagátt, sbr. 5. gr., fyrir 1. júní 2012.

II.
     Fyrsta aðgerðaáætlun skv. 10. gr. skal vera tilbúin til staðfestingar 1. janúar 2014.
     Frá gildistöku laga þessara til 1. janúar 2014 skal starfa samræmingarnefnd um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Hlutverk nefndarinnar er að vinna að fyrstu aðgerðaáætlun skv. 1. mgr. og aðstoða stjórnvöld við frekari stefnumótun á þessu sviði. Umhverfisráðherra skipar nefndina og skulu vera í henni tíu fulltrúar. Umhverfisráðherra tilnefnir einn fulltrúa, forsætisráðherra einn, iðnaðarráðherra einn, innanríkisráðherra einn, mennta- og menningarmálaráðherra einn, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra einn, og skulu þessir fulltrúar ráðherranna annast tengsl við stofnanir viðkomandi ráðuneyta, Samband íslenskra sveitarfélaga einn, LÍSA, samtök um landupplýsingar á Íslandi, einn og Landmælingar Íslands einn. Umhverfisráðherra skipar formann nefndarinnar.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 2011.