Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 603. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1364  —  603. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ólínu Þorvarðardóttur um tekjur ríkissjóðs, skattleysismörk og hálaunaþrep.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað mundu tekjur ríkissjóðs dragast mikið saman ef skattleysismörk yrðu hækkuð úr 118 þús. kr. á mánuði í:
              a.      150 þús. kr. á mánuði,
              b.      200 þús. kr. á mánuði?
     2.      Hvað má ætla að tekjur ríkissjóðs ykjust mikið ef bætt yrði við tveimur hálaunaþrepum, þ.e.:
              a.      55% á laun hærri en 1,2 millj. kr. og 65% á laun hærri en 2 millj. kr. á mánuði,
              b.      55% á laun hærri en 2 millj. kr. og 70% á laun hærri en 3 millj. kr. á mánuði?
    Svar miðist við framtalin laun og álagðan tekjuskatt á árinu 2010.


    Svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar:
    Skattleysismörk eru ekki ákvörðuð sérstaklega heldur eru þau samspil af skatthlutfalli og persónuafslætti sem er afsláttur á skatti. Skattleysismörk er hægt að reikna með eftirfarandi hætti:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í ár er persónuafsláttur 44.205 kr. fyrir einstakling á mánuði og staðgreiðsluhlutfall í lægsta þrepi 37,31%. Þannig er ekki greiddur skattur meðan skattstofn er lægri en 118.480 kr. Heimilt er að draga iðgjöld í lífeyrissjóð og í séreignarsparnað frá tekjum áður en til skattlagningar kemur og því geta skattfrjálsar tekjur á mánuði numið allt að 128.800 kr. Hin svokölluðu skattleysismörk geta þannig bæði breyst ef skatthlutfalli eða persónuafslætti er breytt. Tæplega er rétt að ræða um skattleysismörk nema frá sjónarhóli skattgreiðandans. Ríkissjóður greiðir útsvar til sveitarfélags af tekjum fyrir neðan þessi mörk.
    Ef gert er ráð fyrir því að skattleysismörk yrðu hækkuð með því að hækka persónuafsláttinn einvörðungu þyrfti hann að hækka í 55.965 kr. á mánuði til að mörkin yrðu 150.000 kr. sem er hækkun um 27%. Til að mörkin yrðu 200.000 kr. þyrfti hann að verða 74.620 kr. sem er hækkun um 69%. Reiknilíkön ráðuneytisins eiga erfitt með að meta réttilega svo mikla breytingu sem hér er til skoðunar en ætla má að tekjuminnkun ríkissjóðs yrði ekki undir 25 milljörðum kr. í fyrra tilvikinu og á sjöunda tug milljarða króna í því síðara. Töluverður hluti kostnaðar ríkissjóðs við svo mikla hækkun persónuafsláttar er vegna útsvars til sveitarfélaga. Einnig er hægt að ná hækkun skattleysismarka með því að lækka tekjuskattshlutfall. Í fyrra tilvikinu þyrfti að lækka skatthlutfallið um 8 prósentustig en í því síðara um 15%. Hægt væri að gera hvort tveggja samtímis til að hækka skattleysismörk.

    Svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar:
    Mjög fáir einstaklingar hafa svo miklar tekjur sem hér er gerð tillaga um sérstakt skattþrep fyrir. Ráðuneytið metur að árið 2010 hafi 654 einstaklingar verið með tekjuskattsstofn yfir 14,4 millj. kr. sem samsvarar 1,2 millj. kr. á mánuði. Ef það sem umfram er væri skattlagt með 55% skatti, þ.e. nýtt 23,2% þrep bættist við tekjuskattinn fyrir tekjur umfram mörkin, næmu tekjur af honum rúmum 1.100 millj. kr. Einstaklingar með yfir 2 millj. kr. á mánuði voru 126 og tekjur þeirra samtals 5 milljarðar kr. 65% skattur á tekjustofn umfram 24 millj. kr. til viðbótar 55% skatti gæfi um 100 millj. kr. Tekjuskattur gæti því vaxið um 1,2 milljarða kr. við þetta.
    Í seinna dæminu næmi 55% skattur á tekjur yfir 24 millj. kr. tæpum 500 millj. kr. og 70% skattur á tekjur yfir 36 millj. kr. á ári um 150 millj. kr. Heildaraukning tekna af tekjuskatti gæti í seinna dæminu numið um 650 millj. kr.
    Hér er ekki reiknað með því að þeir sem þessar tekjur hafa breyti samsetningu tekna sinna við slíka breytingu á skattkerfi en þetta er sá hópur sem á auðveldast með að hagræða tekjufyrirkomulagi með tilliti til skattkerfis.