Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 877. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1788  —  877. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Baldurs Þórhallssonar um IPA-landsáætlun.

     1.      Hvað líður samþykkt IPA-landsáætlunar fyrir 2011 vegna undirbúnings hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu?
    Sérhvert ríki, sem sækist eftir aðild, á kost á stuðningi frá Evrópusambandinu til að gera stjórnsýslu þess sem best búna í stakk til að takast á við umsóknarferlið. IPA (e. Instrument for Pre-Accession Assistance) er samheiti yfir alla þessa aðstoð. Um skiptingu í landsáætlun og fjölþegaáætlun, ásamt grófum ramma heildarupphæða sem Ísland á kost á, er vísað til skriflegs svars utanríkisráðherra við annarri fyrirspurn um IPA-stuðning sem lagt var fram á Alþingi hinn 11. maí sl. (þskj. 1401, 640. mál).
    Undirbúningur verkefna sem til greina kæmi að styrkt yrðu á fyrstu landsáætlun IPA 2011 hefur staðið yfir um hríð. Honum lauk formlega 3. júní sl. þegar stjórnvöld sendu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögu sína. Að samanlögðu námu óskir um fjármögnun verkefna sem skoðuð voru mun hærri fjárhæð en hægt var að mæta. Framkvæmdastjórnin kom til móts við það með því að hækka þá heildarupphæð sem upplýst var um í svarinu 11. maí sl. með því að bæta við 2 milljónum evra sem leggjast við þá heildarfjárhæð sem ætluð er til IPA-landsáætlana fyrir Ísland, sbr. svar 11. maí.
    Verkefnin þjóna annars vegar umsóknarferlinu og undirbúningi viðræðna við Evrópusambandið og hins vegar undirbúningi fyrir þátttöku í þeim stuðningskerfum Evrópusambandsins sem einkum varða byggðamál og atvinnuuppbyggingu. Aðstoðin lýtur einnig að verkefnum sem miða að því að mæta EES-skuldbindingum, sbr. eftirgreint. Öll verkefnin eru valin með tilliti til þess að þau nýtist óháð aðild að Evrópusambandinu.
    Ákvörðun verður tekin í nóvember næstkomandi á vettvangi stjórnarnefndar IPA þar sem öll aðildarríki sambandsins eiga sæti.
    Í tillögu Íslands að IPA-landsáætlun 2011 er eftirfarandi lagt til:
          Hagstofan verði styrkt til að endurbæta gerð þjóðhagsreikninga en skortur á mikilvægum hagtölum á ýmsum sviðum veldur erfiðleikum við að meta stöðu einstakra atvinnugreina. Á alþjóðavettvangi er bætt hagskýrslugerð meðal þeirra fyrirbyggjandi aðgerða í efnahagsmálum sem einna mest áhersla er lögð á í kjölfar fjármálahrunsins. Styrkur til verkefnisins mun gera Hagstofunni kleift að fjölga starfsmönnum sem er forsenda þess að ráðist verði í framkvæmd þess.
          Matís fái styrk til að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi sem hafa nú þegar verið innleiddar á Íslandi sem hluti af skuldbindingum í gegnum EES. Markmiðið er að tryggja matvælaöryggi, styrkja eftirlit og auka neytendavernd. Til að það sé hægt þarf að bæta bæði tækjabúnað og þjálfun starfsfólks til að vinna við tiltekin tæki. Hingað til hefur ekki verið til staðar tækjabúnaður til að fylgjast með og greina þau efni sem nauðsynlegt er og því hefur þurft að senda sýni utan með þeim kostnaði og töfum sem því hefur fylgt.
          Náttúrufræðistofnun fer fyrir verkefni sem unnið er í samstarfi fleiri stofnana sem vinna að því að byggja upp NATURA 2000 samstarfsnet á Íslandi. Markmið NATURA 2000 er að kortleggja vistkerfi og fuglalíf á Íslandi með það fyrir augum að auðkenna þau svæði sem þarfnast verndunar. Slík kortlagning er mikilvæg við skipulagningu byggðamála og uppbyggingu ferðaþjónustu, auk náttúruverndar, og forsenda þess að hægt sé að meta í hvaða mæli fyrirliggjandi skráning stenst kröfur sem gerðar eru. Hluti fjárstuðningsins fer í að fjölga starfsmönnum stofnunarinnar.
          Þýðingamiðstöð fái styrk til að standa að þýðingu á regluverki Evrópusambandsins á íslensku. Hluta af stuðningnum er ætlað að styrkja tækjakaup við nýja námsbraut fyrir ráðstefnutúlka við HÍ.
          Skrifstofa landstengiliðs verði styrkt en hún annast samræmingu og miðlun styrkja til að byggja upp frekari þekkingu á stuðningi Evrópusambandsins á sviði byggðamála og atvinnuuppbyggingar. Samkvæmt regluverki IPA tilnefnir utanríkisráðuneytið landstengilið, sem annist samræmingu, stjórn og eftirlit með framkvæmd aðstoðarinnar. Stuðningnum er ætlað að byggja upp þekkingu á því hvernig hægt er að nýta sjóði Evrópusambandsins víðs vegar um stjórnkerfið, þar með talið þá sjóði sem bjóðast umsóknarlöndum. Á þetta sérstaklega við um þau svið sem ekki falla undir EES-samninginn. Stuðningnum verði beint í fyrsta lagi að stofnunum sem hefðu ávinning af því að nýta sér styrkjakerfi Evrópusambandsins í umsóknarferlinu, í öðru lagi að undirbúningi fyrir frekari nýtingu sjóða ef til aðildar kemur, og í þriðja lagi að umsýslu styrkjanna.
          Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fái styrk til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun með því að þróa raunfærnimat. Verkefnið nýtist sem tilraunaverkefni til undirbúnings að þátttöku í Evrópska félagsmálasjóðnum – ESF (European Social Fund). Markmiðið er annars vegar að auka atvinnuhæfni einstaklinga og hins vegar að auka skilvirkni fullorðinsfræðslunnar en hlutfall Íslendinga á aldrinum 20–66 ára án formlegrar framhaldsmenntunar er um 30%, sem er eitt hið hæsta í Evrópu. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi þess hóps sem verst varð fyrir barðinu á kreppunni. Áformuð er sérstök námskrá fyrir fullorðinsfræðslu, viðurkenning á óformlegri (non-formal og informal) menntun, aukin gæði í fullorðinsfræðslu og ráðgjöf til einstaklinga. Hluti verkefnisins er þróun svokallaðs ICT-kerfis en þar verður hægt að nálgast viðurkenndar upplýsingar um starfshæfni einstaklinga óháð menntun.
          Háskólafélag Suðurlands fái styrk til að vinna að verkefninu Katla Jarðvangur. Verkefnið felur m.a. í sér þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið og uppbyggingu á þekkingarsetri um svæðið. Um er að ræða tilraunaverkefni til undirbúnings að þátttöku í Evrópska byggðaþróunarsjóðnum, ERDF (European Regional Development Fund). Það miðar að því að byggja upp dýrmæta reynslu fyrir önnur verkefni sem gætu sótt um styrki í sjóði Evrópusambandsins til að styðja við uppbyggingu atvinnuverkefna. Katla Jarðvangur stefnir einnig að því að þróa fjölbreyttari og viðameiri möguleika fyrir ferðaþjónustuna en áður hefur verið með sérstakri áherslu á umhverfi og menningu. Það fellur því einnig vel að því markmiði að fjölga ferðamönnum á Suðurlandi í kjölfar eldgosa. Verkefnið byggist á samvinnu allra hagsmunaaðila á svæðinu.

     2.      Hver er hagur Íslendinga af samþykkt landsáætlunarinnar?
    Verkefnin á IPA-landsáætlun fyrir árið 2011 nýtast Íslandi með margvíslegum hætti svo sem lesa má af svari við fyrri lið fyrirspurnarinnar. Þau munu í senn efla hlutaðeigandi stofnanir og styrkja stjórnsýsluna, og þar með bæta stöðu Íslands í samningaviðræðunum. Sömuleiðis munu þau bæta þekkingu íslenskra stofnana á möguleikum og þátttöku í stuðningskerfum Evrópusambandsins, svo sem við atvinnuuppbyggingu og eflingu mannauðs.