Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 852. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1907  —  852. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um framleiðslu áburðar á Íslandi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur hagkvæmni, þ.m.t. þjóðhagsleg hagkvæmni, þess að auka framleiðslu áburðar á Íslandi verið könnuð á undanförnum tveimur árum?

    Engin athugun á hagkvæmni þess að auka framleiðslu áburðar á Íslandi hefur farið fram á undanförnum tveimur árum, en samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini I. Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, var slík athugun gerð árið 2008 og verður gerð grein fyrir henni.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands beitti sér fyrir athugun á fýsileika áburðarframleiðslu með stofnun félagsins Hákjarna ehf. á Blönduósi 22. september 2008. Stofnaðilar voru Byggðasamlag um atvinnumál í Austur-Húnavatnssýslu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Saga Capital fjárfestingarbanki og Ingimundur Sigfússon á Þingeyrum.
    Markmið félagsins var að gera úttekt á hagkvæmni áburðarframleiðslu hér á landi með umhverfisvænum orkugjafa, vinna að markaðsathugunum og leita eftir erlendum samstarfsaðilum. Helstu forsendur fyrir hugmyndum um áburðarframleiðslu eru að vetni sem unnið er með rafgreiningu flokkist undir orkufrekan iðnað og hafa forsendur breyst íslenskri orku í hag í samanburði við að nota gas til framleiðslunnar.
    Niðurstaðan úr könnun Hákjarna árið 2008 var að þó að hægt væri að sýna fram á að framleiðsla á vetni með rafgreiningu væri samkeppnishæf við framleiðslu úr gasi þá væri ekki nema hálfur sigur unninn. Framleiðslan mundi standa og falla með markaðshliðinni. Erlendir áburðarframleiðendur eru almennt stórir og byggjast á stærðarhagkvæmni. Því var niðurstaðan sú að ef farið yrði af stað með verksmiðju þyrfti framleiðslugeta hennar að vera a.m.k. tvöföld miðað við innanlandsþörf fyrir eingildan köfnunarefnisáburð, en hún hefur verið á síðustu árum á bilinu 41.000–51.000 tonn. Hinn hlutann þyrfti að flytja úr landi.