Samgönguáætlun 2011--2022

Fimmtudaginn 19. janúar 2012, kl. 17:00:18 (4116)


140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:00]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svar sitt. Ég veit ekki hvort ég hef skilið hann rétt en ef sveitarfélög á Vestfjörðum mundu sameinast yrði það þá gott innlegg í þessa jarðgangaumræðu? Er það eitthvert lykilatriði? Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa ekki séð neinar forsendur til að sameinast af því að þau hafa ekki haft samgöngur til þess. Ég held að það sé alveg réttmætt sjónarmið að bíða með sameiningu þangað til þau geti átt samstarf allt árið um hring. Þetta snýst svolítið um hvort komi á undan, hænan eða eggið.

Mér finnst að ef ná eigi sátt um stórframkvæmdir í jarðgangagerð verði viðmiðin að vera á hreinu. Ég hef ekki enn heyrt hver réttu viðmiðin eru fyrir því að taka Norðfjarðargöng fram fyrir Dýrafjarðargöng. Ég hefði skrifað upp á að gera þau samhliða en ég skil ekki af hverju Norðfjarðargöng eru á undan Dýrafjarðargöngum.

Varðandi ferðaþjónustuna finnst mér vafasamt að tala um markaðssvæði ferðaþjónustunnar af því að þá útilokum við um leið svæði sem eru með erfiðar samgöngur og geta ekki fengið ferðamenn til sín allt árið um kring. Ég vara við orðinu markaðssvæði.