Um húsnæðisstefnu

Mánudaginn 30. janúar 2012, kl. 19:03:03 (4722)


140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

um húsnæðisstefnu.

450. mál
[19:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi þetta með aðkomu sveitarfélaganna, það er kannski ekki síst varðandi leigufélög sem horft var til þeirra. Horft hefur verið til Íbúðalánasjóðs sem hefur látið kanna lagalega möguleika á því að þeir breyttu þeim eignum sem nú þegar eru í leigu yfir í leigufélag. Þar hafa sveitarfélögin komið að í sambandi við Reykjavíkurborg sérstaklega. Það er í gangi vinna við leiguhúsnæði á vegum Félagsstofnunar stúdenta og búsetafélagið á höfuðborgarsvæðinu er í undirbúningi líka. Allir þessir aðilar hafa verið að vinna að þessu, að ógleymdum lífeyrissjóðunum sem hafa tekið mjög gott frumkvæði og átt gríðarlega mikla og góða vinnu í sambandi við það að bera saman lausnirnar sem hugsanlega kæmu til greina á Íslandi varðandi leigufélög og leiguhúsnæði borið saman við Danmörku.

Ég var búinn að nefna þrjá af þeim fimm hópum sem ég sagði að væru í gangi. Því til viðbótar var það þessi vinnuhópur um gerð húsnæðisáætlunar sem fékk það hlutverk að koma með tillögur um víðtækt samráð húsnæðis- og skipulagsyfirvalda við gerð landsskipulagsstefnu og þar eru sveitarfélögin að sjálfsögðu inni. Þar eiga tillögur að liggja fyrir einmitt í apríl næstkomandi. Síðan er það fimmti hópurinn sem er verkefni vinnuhóps um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs sem er gríðarlega stórt verkefni og tengist umræðu margra ára í sambandi við ESA. Sá hópur er í fullum gangi og hefur verið í samskiptum við ESA um þær breytingar. Ég hef áður gert grein fyrir því í þinginu. Við höfum farið þar mjög varlega og reiknað með því að Íbúðalánasjóður haldi sínu félagslega hlutverki sem hann hefur haldið hingað til.

Það eru sem sagt á fjórða tug einstaklinga sem hafa tekið átt í þessu starfi í vinnuhópunum, og samsetningin hefur verið önnur. En ég get upplýst hv. þingmann, sem lagði til gríðarlega góða vinnu og hefur gert það á öllum sviðum í sambandi við umræðu um húsnæðismál, um að fljótlega mun verða kallaður saman gamli hópurinn til að upplýsa um stöðuna og hvað hefur gerst frá því að skýrslunni var skilað. Það er sjálfsögð virðing við alla þá sem lögðu fram gríðarlega mikla vinnu. Þetta er stórt verkefni, við þurfum að vanda okkur, þetta gerist ekki á einni viku eða tveimur en þetta er vonandi í góðum farvegi og vonandi verður niðurstaðan sú að við fáum fjölþættari búsetuúrræði, betri möguleika fyrir fólk til að eiga gott val um öruggt varanlegt húsnæði.