Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 14:21:15 (4943)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að starfsemi Vegagerðarinnar er að uppistöðu til á landsbyggðinni. Það á við um tækjakostinn, það á við um mannaflann og það á við um starfsemina almennt.

Öðru gegnir um stjórnsýsluna. Það eru að vísu öflugir stjórnsýslukjarnar víðs vegar um landið en miðstjórnin er í Reykjavík. Spurningin snýst þá væntanlega um það hvort ég væri tilbúinn að taka þá pólitísku ákvörðun að flytja stjórnsýslukjarna Vegagerðarinnar eitthvert út á land fyrst ég vil ekki binda það í lög.

Það gæti verið gott fyrir þann stað á landinu sem fengi störfin og stjórnsýsluna til sín en við þurfum þá að spyrja um annað, við þurfum að spyrja hvað gagnast þessari starfsemi og þjónustu best. Þá þurfum við að fara í gegnum þá umræðu. Er ég þá búinn að gefa mér svarið fyrir fram? Nei. En ég er búinn að gefa mér eitt fyrir fram og það er að ég gef ekki pólitíska skuldbindingu um að flytja starfsemi eitthvert til að óathuguðu máli, það gæti ég alls ekki gert. Ég tel fleiri rök en færri hníga að því að hafa þungamiðju stjórnsýslunnar nærri annarri stjórnsýslu en efla jafnframt kjarna á landsbyggðinni. Það er í samræmi (Utanrrh.: Sýslumannsembættin.) við þá þróun sem við erum að reyna að stuðla að, að efla landshlutasamtök sveitarfélaganna, efla stjórnsýslu á landsbyggðinni, þannig að það rímar allt bærilega saman.