Barnalög

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 17:39:52 (4990)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig og ég tel að við eigum að vinda okkur í það. Ég vil líka að nota tækifærið og vekja athygli á öðru sem er breyting í frumvarpi hæstv. ráðherra frá því sem nefndin lagði áherslu á og lagði til. Nefndin lagði til að hægt yrði að höfða mál fyrir dómstólum um lögheimilið. Nefndin sem samdi frumvarpið horfðist í augu við að lögheimilið væri orðið svo mikilvægt í forsjármálum, það væri svo margt hengt á lögheimilið að það væri eðlilegt í tilviki forsjárdeilna að fela dómstólum að úrskurða um hvar lögheimilið ætti að vera. Þetta er rökrétt. Ef gera á svona mikið úr lögheimilinu, ef ekki á að vera möguleiki á tvöföldu lögheimili verður að vera hægt að sækja þann rétt fyrir dómstólum. Mér finnst mjög athyglisvert, og það hefur lítið verið rætt vegna þess að það fellur í skuggann af öðru, að hæstv. innanríkisráðherra kýs að leggja þetta ekki til. Fyrst hann kýs að leggja þetta ekki til finnst mér fullkomlega eðlilegt að við tökum öðruvísi á lögheimilismálunum og heimilum tvöfalt lögheimili, að við reynum einfaldlega að búa til manneskjulegt umhverfi í kringum þau mál.

Því er oft haldið fram að þetta sé flókið en þetta eru örfáir lagabálkar sem þarf að breyta. Ég átti fund með Þjóðskrá til að vita hvort tölvan segði nokkuð nei við þessu en svo er ekki. Þar var fullyrt að þetta væri í raun og veru afskaplega einfalt. Þá mundum við einfaldlega hafa það fyrirkomulag á Íslandi að þeir foreldrar sem kjósa að ala upp börn sín saman eftir skilnað fengju allan rétt og skilning (Forseti hringir.) löggjafans á þeirri góðu ákvörðun sinni.