140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:37]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum gengislánadóm Hæstaréttar sem er áfellisdómur fyrir ríkisstjórnina, hagsmunagæslu hennar fyrir fjármálakerfið og stríð hennar gegn almenningi í landinu.

Við munum öll eftir sumrinu 2009 þegar lög komu frá fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra hv. þm. Árna Páli Árnasyni um lög til bjargar heimilunum þar sem fyrsta atriðið sem afskrifa átti voru afleiðuskuldir, það var talið upp í frumvarpinu. Slík var framgangan í þeim málum, afleiðuskuldir útrásarvíkinga voru efst á lista þeirra skulda sem skyldi afskrifa.

Síðar það sumar kom Icesave og stríð ríkisstjórnarinnar gegn almenningi var fram haldið í þeim efnum í þrígang. Svo komu gengistryggðu lánin þar sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn tóku með mjög grófum hætti afgerandi stöðu gegn almenningi með setningu íþyngjandi afturvirkra laga fyrir afmarkaðan hóp fólks. Einu þingmennirnir á Alþingi sem greiddu atkvæði gegn þeim lögum voru þingmenn Hreyfingarinnar, við skulum ekki gleyma því, ekki heldur þeir þingmenn sem verið hafa á flótta með atkvæðagreiðslu sína.

Nú hefur dómur Hæstaréttar fallið og sérhagsmunadaður Samfylkingar og Vinstri grænna við fjármálakerfið verið dæmt ólöglegt. Það eitt og sér ætti að vera næg ástæða til að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar og nýrra kosninga. Sú stefna að deila og drottna og etja saman hópum landsmanna, í þessu tilviki skuldurum með mismunandi tegundir lána, er ekki bara siðlaus, hún hefur núna verið dæmd lögbrot og brot á stjórnarskrá Íslands, eins og segir í dómsorði Hæstaréttar frá í gær.

Stefna ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í skuldamálum heimilanna hefur beðið algert skipbrot. Nú er það skylda hennar og þingmannameirihlutans að setja nýja stefnu og taka af alvöru og sanngirni á skuldamálum heimilanna með almennum leiðréttingum á öllum fasteignaveðlánum þeirra. Hreyfingin hefur kynnt fyrir forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar áætlun um almenna leiðréttingu á verðtryggðum fasteignalánum með umtalsverðri niðurfærslu á verðtryggðum hluta þeirra án þess að til viðbótarútgjalda komi fyrir ríkissjóð og án þess að efnahagsreikningar lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja verði fyrir skerðingu. Þeim tillögum var alfarið hafnað án nokkurs rökstuðnings í viðræðum, sem áttu sér stað milli jóla og nýárs, milli Hreyfingarinnar og hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Í framhaldinu höfum við í Hreyfingunni því unnið þingsályktunartillögu um slíka almenna leiðréttingu og munum væntanlega óska eftir meðflutningsmönnum á hana úr öllum flokkum strax í næstu viku. Við hvetjum alla þingmenn til að taka undir með okkur og skorum á ríkisstjórnina að bretta upp ermarnar og beita sér fyrir útfærslu málsins með tilheyrandi lagasetningu hið fyrsta.

Tími óheilindaaðferða ríkisstjórnarinnar verður að enda. Hver man ekki eftir öllum hrakspám ríkisstjórnarinnar um fall fjármálakerfisins ef leiðrétta ætti lán heimilanna? Og hver er sagan í dag? Jú, fjármálakerfið stendur bara mjög vel, segir hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, og ræður alveg við þennan skell. Hver man ekki eftir hrakspám hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra Árna Páls Árnasonar og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra þegar þeir beittu óhefluðum hræðsluáróðri í öllum lagasetningum fyrir fjármálakerfið? Ætla þingmenn meiri hlutans virkilega að halda áfram stuðningi við þetta fólk og þennan málflutning sem setið hefur hér svo lengi og hefur mistekist algerlega að gera upp hrunið hvert sem litið er?

Vegferð óheilindaumræðu á Alþingi þarf að enda og sá sjúki hálfsannleikur sem stjórnarliðar hafa haft í frammi í flestum málum frá upphafi kjörtímabilsins þarf að hætta. Það er hægt að leiðrétta skuldir heimilanna án þess að það lendi á skattgreiðendum. Hættið að halda öðru fram. Það er hægt að leiðrétta skuldir heimilanna án þess að (Forseti hringir.) högg komi á lífeyri gamla fólksins og það er hægt að leiðrétta skuldir heimilanna án þess að fjármálafyrirtæki verði fyrir alvarlegu áfalli. Við munum kynna þá leið og (Forseti hringir.) ég krefst þess að þingmenn hætti þeim óheilindaáróðri sem þeir hafa haft í frammi um annað í hartnær þrjú ár.