Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 13:50:36 (5376)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[13:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsögu hennar varðandi málefni lífeyrissjóðanna.

Tvær spurningar sem ég vil beina til hæstv. ráðherra. Fyrri spurningin varðar það hvort ráðherrann sé enn þá sammála því sem kom fram í ályktun þingmannanefndarinnar sem ráðherrann átti sæti í, þess efnis að fram færi sjálfstæð, óháð rannsókn á vegum Alþingis á starfsemi lífeyrissjóðanna allt frá árinu 1997 þegar lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða voru sett. Í framhaldi af því skyldi fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sjóðanna.

Seinni spurning mín varðar afstöðu ráðherrans til þeirra tillagna sem meðal annars koma fram í skýrslu Landssamtaka lífeyrissjóða um að kjósa eigi fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðanna úr hópi sjóðfélaga. Þá vil ég vísa til þess frumvarps sem ég hef í tvígang lagt fram um að einn maður fái eitt atkvæði, eða einn sjóðfélagi fær eitt atkvæði og greiðir atkvæði í samræmi við það.

Ég vil því spyrja í fyrsta lagi: Telur ráðherrann rétt að það séu lýðræðislega kjörnir fulltrúar í stjórnum sjóðanna?

Í öðru lagi um fyrirkomulagið: Telur ráðherrann rétt að atkvæðavægi miðist við einstaklinginn, þ.e. einn maður, eitt atkvæði? Hver er afstaða hennar til annarra tillagna sem komu hér fram um að atkvæði eigi að byggjast á þeim peningum sem viðkomandi hefur borgað inn í sjóðina?