Meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga

Þriðjudaginn 21. febrúar 2012, kl. 16:52:49 (5530)


140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:52]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talar um að stjórnarskrárumræðan sé friðarspillandi í samfélaginu og má lesa það af nefndaráliti hennar, 2. minni hluta, þar sem hún eyðir lengstum tíma í að fjalla um að stjórnlagaráðið sé ómarktækt og hafi ekkert umboð og eigi ekki að koma nálægt því máli á einn eða neinn hátt. Það er kannski lýsandi dæmi um hvernig sá hv. þingmaður setur málið fram að í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkti að beina skýrslu stjórnlagaráðs til Lagastofnunar Háskóla Íslands til úrvinnslu, samlestrar og samræmingar. Tók stofnunin vel í erindi nefndarinnar og taldi að verkið væri svo vandasamt og umfangsmikið að vinnan við skýrsluna mundi taka a.m.k. eitt ár. Þessu undi meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ekki og tók málið úr höndum Lagastofnunar og flutti það aftur til nefndarinnar …“

Ég leyfi mér að spyrja: Hvenær og á hvaða fundi samþykkti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að vísa málinu til Lagastofnunar og á hvaða fundi var samþykkt að taka málið til baka?