ESB og fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi

Mánudaginn 27. febrúar 2012, kl. 15:07:26 (5756)


140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

ESB og fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi.

[15:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nei, það tel ég ekki vera. Væntanlega hafa allir þá fyrirvara að ekki eru kláraðir samningar hvað sem það kostar, um hvað sem er bara til að klára samninga. Ég hef aldrei upplifað þetta þannig. Þvert á móti er það skrifað inn í ferlið og ég man ekki betur en að um það sé fjallað í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem er orðin hálfgerð biblía í þessum málum að þá skuli koma með málin aftur til Alþingis ef einhver sú uppákoma verður í viðræðum um grundvallarhagsmuni okkar að það þurfi að taka nýjar ákvarðanir. Ég man ekki betur en að þannig sé um það búið þar. Þá kæmi það aftur til kasta Alþingis ef einhver slík staða væri komin upp enda er umboðið sótt hingað, ekki satt, til að standa í þessu.

Ég held að það sé enginn ágreiningur í sjálfu sér í þessum efnum eða skoðanamunur hvað varðar afstöðu mína og hæstv. innanríkisráðherra. Það kom ekkert nýtt fram um helgina, við höfum haft þá afstöðu allan tímann að reyna að koma þessu í gang sem alvöruviðræðum um hin stóru og mikilvægu (Forseti hringir.) hagsmunamál þannig að við yrðum að minnsta kosti einhverju nær. Og því fyrr, því betra.