Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 17:19:44 (5939)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

120. mál
[17:19]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir stuðningi við þessa ágætu tillögu sem ég las áðan. Af átökum og umróti síðustu ára vakti fátt önnur eins viðbrögð úti um allar byggðir landsins og fyrirætlanir fyrir nokkrum missirum um að breyta allverulega heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Það laut að tilraunum til að styrkja heilsugæsluþáttinn og draga mjög úr umfangi sjúkrasviðanna. Auðvitað má segja að það sé hvort sitt sviðið á einni og sömu stofnuninni og vöktu tillögurnar mjög harkaleg og mikil viðbrögð. Fundir voru haldnir út um allt og kjörnir fulltrúar á Alþingi fundu það betur en oft áður hvað heilbrigðisþjónustan stendur fólkinu nærri. Það er gríðarlega mikilvægt að heilbrigðisþjónustan sé viðunandi og að um hana sé sátt og að fólk finni til öryggis og ánægju varðandi hana. Búið er að gera ýmsar breytingar á liðnum árum; sameina heilbrigðisstofnanir í fjórðungum og ýmislegt gott hefur verið gert til að styrkja þær. Þó hefur verið gengið nærri svæfingarþjónustu þannig að vaktir hafa verið lagðar af en sem betur fer hefur þó yfirleitt tekist að halda fæðingarþjónustu opinni í gegnum þessar hremmingar.

Ef þjóðarbúsreksturinn gengur áfram þokkalega sjáum við vonandi á fjárlögum í haust að gert verði ráð fyrir að fjárfest verði aftur í þessari viðkvæmu og mikilvægu þjónustu. Eitt er ég sérstaklega ánægður með í tillögunni, þ.e. að fá fulltrúa heimamanna, sveitarstjórna og annarra í þessi mál, þá færum við stjórnina enn þá nær fólkinu og tryggjum meiri sátt og samstöðu um tillögurnar.

Mig langar til að spyrja hv. 1. flutningsmann hvernig hann sjái það gerast. Yrðu fulltrúar þá tilnefndir af svæðissamböndunum eða með einhverjum slíkum hætti?