Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 17:28:06 (5943)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

120. mál
[17:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um beina þátttöku sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Það er mál sem mörgum okkar, kannski sérstaklega landsbyggðarþingmönnum, hefur verið umhugað um í býsna langan tíma. Ástæðan er sú að hart hefur verið gengið að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni af ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á kjörtímabilinu.

Það sem vakir fyrir flutningsmönnum er að sjálfsögðu að styrkja tengslin við heimabyggðina, nýta þá þekkingu sem til staðar er heima fyrir. Það má segja að fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu skipti kannski ekki svo miklu þegar fjárveitingar eru skornar niður og eru af skornum skammti. Þá fer maður óneitanlega að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að bregðast við með einhverjum hætti, með því að auka fjármuni til heilbrigðisþjónustunnar eða í það minnsta að stöðva þá atlögu sem gerð hefur verið á kerfið og að styrkja aðkomu heimamanna að stjórnum og ráðum.

Eins og flestir þekkja var fyrir nokkrum árum ákveðið að breyta þessu, þ.e. að heimamenn eru ekki lengur í þessum stjórnum. Það var í sjálfu sér ekkert að því að prufa það en að mínu viti er nú rétt að snúa til baka frá því fyrirkomulagi því að ég held að það hafi ekki gefist nægilega vel.

Við höfum orðið vitni að því að þegar fjarlægðin er orðin þetta mikil er erfiðara að koma á framfæri skilaboðum sem nauðsynleg eru til að gæta þeirra hagsmuna sem mestu máli skipta í huga heimamanna.

Við höfum gert breytingar á lögum um fyrirtæki. Við höfum stigið það skref að setja reglur um jafnan hlut karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja og er það mjög gott að það skuli hafa verið gert. En næsta skref eða eitt af mörgum skrefum sem við þurfum að taka er að ganga þá leið sem hér er lögð til, þ.e. að auka aðkomu heimamanna að þessum stjórnum. Ég held að það muni auka jafnræði og stuðla að betri stofnunum þegar fram í sækir. Þar með erum við í raun að auka jafnræði á milli þeirra sem helst nýta sér þjónustuna og framkvæmdarvaldsins sem setur reglurnar og útdeilir fjármunum.

Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri við þessa umræðu. Í þingsályktunartillögunni eru nefndir til sögunnar nokkrir sem líklegt er að verði tilnefndir sem fulltrúar í þessar stjórnir.

Málið er gott og því eigum við að hvetja velferðarnefnd til að fjalla vel og ítarlega um það og að sjálfsögðu að kalla eftir athugasemdum við tillöguna. Við munum hvetja til þess að heimamenn, eins og við köllum þá hér, sendi inn athugasemdir við málið.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Það er eitt af þeim þingmálum sem búið er að flytja tvisvar áður. Nú er það flutt í þriðja sinn og ég vona sannarlega, frú forseti, að það nái fram að ganga í þinginu að þessu sinni.