Umræður um störf þingsins 29. febrúar

Miðvikudaginn 29. febrúar 2012, kl. 15:20:26 (5971)


140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það gleður mig að vita að hv. þm. Birkir Jón Jónsson veit nákvæmlega hvaða flokki ég tilheyri, (Gripið fram í: Var það nokkuð leyndarmál?) hópi, heitir það.

Ég ætlaði að gera að umræðuefni og taka undir orð hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um lausnir á skuldavanda heimilanna. Við sendum á alla þingmenn í síðustu viku tillögur sem eru mjög vel útfærðar og gera ráð fyrir því hverjir eigi að borga, ef farið verður út í almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna, og óskuðum eftir meðflutningsmönnum. Síðan þá hef ég rætt við allnokkra þingmenn úr einhverjum flokkum en ekki öllum. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki rætt við fleiri er einfaldlega sú að ekki hefur gefist tími til þess og við sáum ekki ástæðu til að bíða með að dreifa tillögunni eins og hún lá fyrir. Henni var því dreift hér í gærkvöldi en ég mun í framhaldinu, í dag og á morgun, reyna eins og ég get að ná samtali við þingmenn úr öðrum flokkum með það í huga að láta prenta upp tillöguna aftur ef á hana koma fleiri meðflutningsmenn.

Þetta er ein af mörgum tillögum eða nokkrum sem verið er að ræða þessa stundina meðal þingflokkanna. Ég legg einfaldlega áherslu á það einu sinni enn að menn setjist niður og skoði þessi mál með opnum huga en dæmi þau ekki út af borðinu fyrir fram eins og var gert með þessa tillögu af þingmanni hér strax daginn eftir að henni var dreift til þingmanna. Það eru ekki boðleg vinnubrögð að afgreiða mál fyrir fram með slíkum hætti. Við þurfum að hætta því og reyna að leysa þetta brýnasta vandamál efnahagslífsins sem stendur með vilja og samvinnu helst allra á þinginu ef hægt er. Það er hægt að leysa það, þetta er fyrst og fremst spurning um að menn setjist niður og vinni saman af heilum hug og verði allir samvinnumenn að minnsta kosti í einn dag.