Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar

Fimmtudaginn 01. mars 2012, kl. 14:35:30 (6199)


140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

68. mál
[14:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa tillögu. Það er alltaf gaman þegar menn setja hugðarefni sín fram með þessum hætti og berjast fyrir þeim. Það hefur hv. þingmaður gert.

Nú liggur fyrir tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir mælir fyrir ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar. Ég kom inn á þá staðreynd í andsvari áðan við hv. þingmann sem margir hafa áhyggjur á landsbyggðinni, að enginn mælti því í mót að sjávarútvegurinn greiddi auðlindagjald fyrir notkun á nýtingu auðlindarinnar. Margir hafa hins vegar áhyggjur af því í ljósi þess hvernig þrengt hefur að landsbyggðinni á undanförnum áratugum og árum að auðlindagjaldið muni áfram renna í ríkissjóð og að ekki sé bein tenging við byggðarlögin með neinum hætti. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir segir það jafnan, og ég kýs að trúa því af því að ég veit að hv. þingmaður ber hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, að þau mál sem hún talar fyrir séu mikilvæg fyrir landsbyggðina.

Ég velti því hins vegar upp í þessari umræðu hvort sami hvati búi að baki hjá sumum öðrum hv. félögum hv. þingmanns. Ég nefni til að mynda þingmenn á borð við hv. þm. Helga Hjörvar og hv. þm. Magnús Orra Schram. Þegar frumvarpsdrög voru rædd síðast í þinginu, sem fóru síðan til nefndar til umsagnar, voru þessir þingmenn alveg brjálaðir yfir því að byggðatengja ætti ákveðinn hluta af auðlindagjaldinu.

Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort hvatarnir séu ekki af ólíkum toga og hvort þeir þingmenn sem hæst hafa um þessi mál séu í raun með hag landsbyggðarinnar að leiðarljósi? Ég hef verulegar efasemdir um að svo sé og finnst það miður.

Ef maður skoðar ferlið í sjávarútvegsmálum var skipuð ákveðin sáttanefnd strax við myndun ríkisstjórnarinnar. Hún vann mjög umfangsmikla vinnu sem að komu aðilar úr öllum stjórnmálaflokkum, hagsmunaaðilar, þeir sem vilja breyta kerfinu. Þar tókust á ólík sjónarmið. Sá sem veitti þeirri nefnd forustu var hv. þm. Guðbjartur Hannesson. Sú nefnd skilaði af sér niðurstöðum. Í framhaldinu var unnið frumvarp. Þegar það frumvarp var síðan kynnt af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóni Bjarnasyni, sögðu ónafngreindir þingmenn Samfylkingarinnar í vefmiðlum, meðal annars á Eyjunni, að það væri eins og simpansar hefðu skrifað það frumvarp. Í framhaldinu var því frumvarpi breytt að nokkru leyti. Frumvarpið var lagt fram í þinginu og fór síðan til umsagnar og var algjörlega keyrt í kaf af öllum umsagnaraðilum.

Í framhaldinu var hafin vinna við nýtt frumvarp sem var síðan kynnt á netinu, það var ekki ólíkt því sem sáttanefndin byggði á, en niðurstaðan úr þeirri vinnu var frumvarp sem ég held reyndar að margir hefðu getað fellt sig við með einhverjum breytingum. Frumvarpið byggði á sjónarmiðum úr ólíkum áttum. Það virtist vera að bæði þeir sem vildu gera mjög miklar breytingar og þeir sem vildu gera mjög litlar breytingar væru óánægðir með það frumvarp, það var algjörlega vonlaust. Hæstv. forsætisráðherra sló það strax út af borðinu og sagði að nú yrði að henda þeim ráðherra út úr ríkisstjórn sem mælt hefði fyrir þessu frumvarpi. Í framhaldi voru skipaðir tilsjónarmenn, hæstv. ráðherrar Guðbjartur Hannesson og Katrín Jakobsdóttir. Þessir tilsjónarmenn fóru, að því er ég best veit, yfir frumvarpsdrögin og ég hef ekki heyrt mikla gagnrýni á þau drög.

Það sem stendur upp úr eftir þessa upprifjun er allur vandræðagangurinn með málið innan ríkisstjórnarmeirihlutans, innan stjórnarflokkanna. Það eru gríðarlega ólík sjónarmið innan beggja flokkanna og á milli flokkanna, það sáum við þegar þingfundi var að ljúka. Þegar lögð er fram þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er gott og gilt, það er fallegt að leggja fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu, spyr maður sig: Hver er tilgangurinn með þessari þjóðaratkvæðagreiðslu? Hér er texti um grundvallarspurningar um eitt og annað, en hver er nákvæmlega tilgangurinn með þjóðaratkvæðagreiðslunni? Hvað er það nákvæmlega sem á að fá út með henni? Er það eitthvað sem mun minnka vandræðaganginn á stjórnarheimilinu varðandi þetta mál?

Það er alveg ótækt þegar maður horfir á þessa grunnatvinnugrein, því að við getum verið sammála um að þetta er ein af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar, að kjörtímabilið er komið vel fram í seinni hálfleik og búið er að veltast um með þetta mál fram og til baka í óvissu. Það er ekki gott fyrir nokkurn mann sem reynir að starfa í þessari grein.

Ég þekki það til að mynda úr landbúnaðinum og fyrirtækjarekstri að það er vonlaust fyrir þá sem hafa atvinnu af viðkomandi atvinnugreinum þegar það er eilíf óvissa um hvert stefna á. Af hverju getur ríkisstjórnin ekki reynt í eitt skipti fyrir öll að setjast niður og koma sér saman um þessi mál, koma fram með frumvarp sem þokkaleg sátt ríkir um innan stjórnarflokkanna?

Ég sé ekki að þessi þjóðaratkvæðagreiðslutillaga geri það að verkum að hún flýti fyrir því að einhver sátt náist í þessum málum. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé rétt sem margir segja að það kunni að vera að Samfylkingin vilji ekki klára sjávarútvegsmálin fyrir kosningar því að það sé mjög gott að halda því máli opnu þegar kemur að kosningum. Þá vitna ég til margra sem hafa tjáð sig um þessi mál, meðal annars á bloggsíðum, vefsíðum og nú nýverið í Silfri Egils, þar sem fram hefur komið að Samfylkingin sé sko tilbúin í kosningar, hún sé eini flokkurinn sem vilji breyta sjávarútvegskerfinu. En hins vegar er engin samstaða um hvernig Samfylkingin vill breyta sjávarútvegskerfinu.

Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögur í átt til breytinga í þessum efnum sem eru ekkert fjarri því sem sáttanefndin lagði til, sem hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson fór fyrir. En þessi eilífi vandræðagangur er farinn að stórskaða íslenskan sjávarútveg, þjóðarhagsmuni og landsbyggðina.

Ég spyr mig að því hver sé tilgangurinn með þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort þetta sé, sem ég vona ekki, liður í þeim leiðangri sem ég lýsti áðan, að reyna að draga upp þá mynd að Samfylkingin sé eini flokkurinn sem vilji breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er mikið áhyggjuefni og jafnvel þótt góður hugur búi þarna að baki efast ég um að það verði til þess að leysa þann vanda sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir. Það verður að fara að höggva á þennan hnút, það verður að ná sátt í þessari atvinnugrein, það verður að fara að skapa þá umgjörð að fyrirtækin geti horft lengra fram í tímann en eina viku.