Prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar

Mánudaginn 12. mars 2012, kl. 15:31:14 (6237)


140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar.

[15:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekki dregið í efa hæfi þess ágæta prófessors sem ráðinn er í þessa stöðu. Að sjálfsögðu er það skilyrði fyrir ráðningu í prófessorsstöðu að umsækjendur uppfylli hæfiskröfur og að ráðningin sé fagleg í alla staði. Ég vek hins vegar athygli á þeim fyrirheitum sem gefin voru, m.a. í ræðu hæstv. forsætisráðherra 17. júní sl., um að sá sem ætti að gegna stöðunni skuli hafa fasta búsetu á Ísafirði eða nágrenni og hafa um kennslu og rannsóknir starfsskyldur og samstarf við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og Háskólasetur Vestfjarða. Í ljósi þessa eru það auðvitað vonbrigði að sjá síðan prófessorsstöðuna staðsetta við Suðurgötu í Reykjavík því að á meðan er ekki hægt að sjá að kennsluskylda prófessorsins sé á Ísafirði á nokkurn hátt eða að hann taki (Forseti hringir.) doktorsnema og sendi þangað til kennslu. Markmiðið með því að gefa Vestfirðingum þessa stöðu hélt maður auðvitað að væri það að þeir gætu notið góðs af kennslu og fyrirlestrahaldi prófessors. (Gripið fram í.)