140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[16:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem við ræðum er afar merkilegt plagg og ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að hafa beðið um þessar upplýsingar. Það tók reyndar heilt ár frá því að skýrslubeiðni var lögð fram þar til hv. þingmaður fékk skýrsluna í hendur. Skýrslan sýnir fyrst og fremst að ríkisstjórnin er á sömu leið og gríska ríkið fór þegar það var að reyna að komast inn á evrusvæðið. Hér er um fleiri hundruð milljarða íslenskra króna að ræða sem ekki eru færð í ríkisreikning. Nú stöndum við frammi fyrir því að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, dreifði, sem ráðherra í nýrri ríkisstjórn, ríkisábyrgð út um allar koppagrundir sem engin innstæða var fyrir og var ekki færð til bókar í ríkisreikningi.

Ég geri mjög miklar athugasemdir við það, herra forseti, sérstaklega í ljósi þess að það var ekki fært í ríkisreikning. Þetta eru svo himinháar upphæðir, enda segir skýrslan alveg með skýrum hætti hvað um er að ræða hér og hv. þm. Pétur Blöndal fór vel yfir það í framsöguræðu sinni.

Til dæmis má nefna allar þær innstæðutryggingar sem ríkisstjórnin lætur líta út fyrir að ríkisábyrgð sé fyrir. Það kemur fram í skýrslunni. Ég veit það sem lögfræðingur að ef á hina svokölluðu ríkisábyrgð mundi reyna fyrir dómstólum væri mjög vafasamt að hún mundi halda vegna þess að hún er ekki komin inn í fjárlög. Það má því segja að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafi að nokkru leyti blekkt innstæðueigendur með því að hafa yfirlýsingar um ríkisábyrgð á munnlegu formi og (Forseti hringir.) færa það ekki inn í fjárlög. Upp er komin mjög alvarleg staða og þetta mál er eitt af því sem þarf að skoða. Það hefði þurft langtum lengri umræðu um málið, herra forseti.