140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

skuldbindingar ríkissjóðs sem ekki eru nefndar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið mjög málefnaleg. Nú er það þannig að mér sem stjórnarandstæðingi finnst aginn vera minnkandi, en það er kannski eðlilegt af því að ég er stjórnarandstæðingur. Mér finnst það færast í vöxt að menn séu með alls konar skuldbindingar sem ekki eru færðar í fjárlög. Það hefur svo sem verið áður líka, þannig að ég held að við þurfum að reyna að horfa til framtíðar og reyna öll saman að koma með fjárlög sem sýna raunverulega allar skuldbindingar ríkissjóðs þannig að hin hagsýna húsmóðir eða húsbóndi, sem er fjármálaráðherra, geti horft framan í kjósendur sína og skattgreiðendur og sagt: Þetta eigið þið að borga elskurnar mínar næstu áratugina. Þá þarf líka að koma upp margra ára fjárlögum.

Það stendur í 40. gr. stjórnarskrárinnar að ekki megi taka lán nema samkvæmt lagaheimild. Það þýðir að ekki megi skuldbinda nema getið sé um það hvernig það fellur til. Þegar búið er að lögfesta og setja lán í fjárlög liggur fyrir hvað er greitt á hverju ári. Þetta finnst mér að þurfi að gera líka með 6. gr. ákvæðin. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að taka inn í fjárlögin eins og lánaskuldbindingu allar skuldbindingar sem eru til lengri tíma en eins árs.

Það er nýbúið að bakka út úr B-deildinni. Það er nýbúið að breyta lögum þannig að sú skuldbinding fellur ekki til eins og mér finnst hún eigi að gera. Það er mjög margt sem mér finnst að við þurfum að gera, en fyrst og fremst finnst mér að til framtíðar þurfum við að stefna að því að fjárlög séu hallalaus og að skattgreiðendur framtíðarinnar viti hvað þeir eigi að greiða. Það er það allra mikilvægasta. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að lesa þessa skýrslu vandlega og taka til sín þær ábendingar sem þar eru.