Heilbrigðisstarfsmenn

Miðvikudaginn 14. mars 2012, kl. 16:36:10 (6470)


140. löggjafarþing — 73. fundur,  14. mars 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við fetum hér í fótspor nágrannaþjóðanna og hyggjumst setja heildstæða rammalöggjöf um alla heilbrigðisstarfsmenn, 33 löggiltar heilbrigðisstéttir. Markmiðið er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra.

Þetta mál hefur nú verið unnið á þremur þingum og um það hefur náðst víðtæk samstaða og samhljómur í flestum atriðum, ekki aðeins innan þingsins heldur einnig við þær heilbrigðisstéttir allar sem ég nefndi. Ég hvet til þess að breytingartillögur 1. minni hluta verði samþykktar en óska jafnframt eftir því að málið gangi aftur til hv. velferðarnefndar vegna þess dráttar sem orðið hefur á því að Persónuvernd úrskurði um kæru Læknafélags Íslands (Forseti hringir.) um heimild landlæknis til þess að krefja lýtalækna upplýsinga vegna brjóstapúðamálsins. (Forseti hringir.) Það þurfum við að skoða aðeins betur og því óska ég eftir að málið fari aftur til nefndar.