Orð forsætisráðherra um krónuna

Fimmtudaginn 15. mars 2012, kl. 11:03:31 (6511)


140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

orð forsætisráðherra um krónuna.

[11:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þetta er farið að slá öll fyrri met. Þriðja daginn í röð koma forsvarsmenn Samfylkingarinnar hingað upp og fara með helber ósannindi. Það er einfaldlega þannig að við framsóknarmenn höfum haldið uppi virkri umræðu um gjaldmiðilsmál á undangengnum árum og við héldum ágæta ráðstefnu um það hvort til greina kæmi að horfa til meðal annars kanadadollars. Það er ekki þar með sagt að í ljósi þess að við héldum ágætt málþing um það að það sé þar með orðin stefna Framsóknarflokksins. Okkur ber hins vegar skylda til að halda uppi umræðu um gjaldmiðilsmál. Hæstv. forsætisráðherra virðist því miður einungis geta litið í eina átt þegar kemur að því.

Hins vegar skulum við horfast í augu við þá staðreynd að krónan verður gjaldmiðill þjóðarinnar til næstu ára, í nokkur ár, og á meðan svo er ber okkur skylda til að tala varlega um gjaldmiðilinn eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra benti á áðan. Það þýðir ekki fyrir hæstv. forsætisráðherra að gaspra um gjaldmiðilinn með þeim hætti að tiltrú á honum (Forseti hringir.) veikist sem leiðir það af sér að kaupmáttur heimilanna minnkar og skuldirnar hækka. Það gengur einfaldlega ekki að hæstv. forsætisráðherra tali með þessum hætti.