Makríldeilan við ESB

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 13:56:54 (6589)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

makríldeilan við ESB.

[13:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Undanfarna mánuði hafa vofað yfir okkur hótanir Evrópusambandsins um viðskiptaþvinganir vegna makríldeilunnar svokölluðu. Nú hefur það verið upplýst að á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins í gær hafi verið ákveðið að flýta vinnu við að koma á refsiaðgerðum gegn Íslendingum og Færeyingum. Þær refsiaðgerðir sem rætt hefur verið um í þessu sambandi og hafa komið fram í fjölmiðlum eru annars vegar að setja á bann við innflutningi á uppsjávarfiski, t.d. makríl og afurðum sem framleiddar eru úr honum, og hins vegar að setja á bann við innflutningi á tækjum tengdum sjávarútvegi og skipum.

Hér er stigið mjög stórt skref og boðaðar mjög harðar refsiaðgerðir af hálfu Evrópusambandsins gagnvart Íslandi. Ef þetta verður að veruleika mun það hafa mjög mikil áhrif, annars vegar í sjávarútveginum og hins vegar í ýmsum iðngreinum hér á landi. Núna liggur með öðrum orðum grafalvarleg hótun í loftinu. Þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til hafa kannski verið fremur táknrænar og ekki haft mikil áhrif hérlendis en ef þetta gerist mun það hafa mjög alvarleg áhrif.

Á sama tíma segir sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Coveney, að makríldeilan geti líka haft áhrif á viðræður okkar og Evrópusambandsins og geti til dæmis leitt til þess að ekki verði opnaðir kaflar í sjávarútvegsmálum. Mér er kannski nokk sama um það en það sem blasir sem sagt við er að Evrópusambandið tengir með beinum hætti saman makríldeiluna og umsókn okkar að Evrópusambandinu. Hæstv. forsætisráðherra hafnaði því hér í síðustu viku en nú liggur fyrir að viðsemjendur okkar líta þannig á að þetta sé einn og sami hluturinn og tengja þetta beint. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða áhrif hefur þetta á áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið? Mun ekki hæstv. ráðherra lýsa því yfir að ef þetta nái fram að ganga sé viðræðum við Evrópusambandið um aðild (Forseti hringir.) sjálfhætt?