Efling græna hagkerfisins á Íslandi

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 14:50:06 (6613)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það ber að fagna þessu máli, þetta er framfaraskref í atvinnumálum og umhverfismálum á Íslandi en þessi tvö atriði geta vel farið saman, það sannar þetta mál þar sem slegið er á einsleitni í atvinnulífi. Einsleitni í atvinnulífi hefur staðið Íslandi fyrir þrifum, sérstaklega í smærri byggðum víða um land, um áratugaskeið. Hér er verið að sækja fram á sviði fjölbreytni með grænu hagkerfi, þetta er vel.

Þetta mál sannar, frú forseti, að þingið getur mjög vel unnið saman. Það sannaðist í hv. atvinnuveganefnd að menn geta lagst á eitt og bætt mál í staðinn fyrir að rífa þau niður. Hér fóru menn að skrifborðinu í staðinn fyrir að fara í skotgrafirnar og unnu málið vel allir saman. Svona eigum við að vinna.