Úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði

Miðvikudaginn 21. mars 2012, kl. 15:40:06 (6700)


140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:40]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða um þetta mál sem verið hefur til umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd. Meiri hlutinn leggur til að málið verði samþykkt með breytingartillögu sem sýnir okkur að ekki hefur málið verið nægjanlega vel unnið. Það var skoðun okkar sjálfstæðismanna í nefndinni að sú nefnd sem starfar á vegum innanríkisráðuneytisins, undir forustu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, hefði átt að fá útvíkkað umboð til að taka að sér þetta verkefni. Þá hefði verið hægt að ganga í það strax, en fyrir því var ekki meiri hluti. Við munum horfa til breytingartillagnanna vegna þess að þær eru þó af hinu góða en við munum sitja hjá við afgreiðslu málsins.