140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er afar góð spurning en þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. Ég held í fyrsta lagi að þetta sé dæmi um þau hroðvirknislegu vinnubrögð sem þetta mál einkennist allt saman af. Síðan tel ég einhvern ásetning fólginn í þessu vegna þess að þetta er sú barátta sem farið hefur fram í umræðunni um stjórnarskrána í slagorðastíl. Hver er tilgangurinn með því? Tilgangurinn með því er eins og það snýr við mér að reyna að stilla okkur sjálfstæðismönnum upp sem andstæðingum þess að náttúruauðlindir séu færðar í stjórnarskrá sem þjóðareign. Það er algerlega rangt. Eins og hefur margoft komið fram í dag þá höfum við sjálfstæðismenn einmitt lagt fram tillögu þar sem þetta orðalag er mun skýrara og þar sem við leggjum til að þetta ákvæði verði fært inn í stjórnarskrá.

Það er óskiljanlegt fyrst tillaga stjórnlagaráðs, sem hv. þingmaður las upp, er orðuð með miklu skýrari hætti hvers vegna þetta skuli vera sett svona fram, bara til að villa um fyrir þjóðinni og kjósendum og reyna að skapa úlfúð flokka á milli.