140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[01:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég hygg að það megi fullyrða að þeir atburðir sem gerðust hér í kvöld séu að minnsta kosti mjög fátíðir í þinginu, ef til vill ekki fordæmalausir en afar fátíðir. Framganga þingmanna tveggja stjórnarandstöðuflokka er algjörlega með ólíkindum, þingmanna Sjálfstæðisflokksins og flestra þingmanna Framsóknarflokksins, svo því sé til haga haldið.

Staðan er þessi: Sjálfstæðisflokkurinn og flestir þingmenn Framsóknarflokksins hafa talað hér í allan dag gegn því að þjóðin fái að njóta lýðræðislegs réttar til að taka afstöðu til álitamála er varða stjórnarskrá lýðveldisins. Síðan þegar kemur að því að málið fari í hefðbundinn þinglegan farveg til nefndar ætlar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir að þingmenn fái að taka afstöðu til þess hvort málið eigi að fara í hefðbundna þinglega meðferð. (Gripið fram í.) Það gerði formaður þingflokks (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins einnig með því að ganga út úr (Forseti hringir.) þinghúsinu með obbann af þingflokki sínum og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins með því að vilja ekki boða þingflokk sinn til atkvæðagreiðslu fyrr en (Forseti hringir.) gerðar höfðu verið alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins.